Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/13

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Haraldur gráfeldur fór um sumarið til Danmerkur og hafði þrjú langskip. Þar stýrði einu Arinbjörn hersir úr Fjörðum. Haraldur konungur sigldi út úr Víkinni og til Limafjarðar og lagðist þar að Hálsi. Var honum sagt að Danakonungur mundi þar koma brátt.

En er þetta frá Gull-Haraldur þá heldur hann þannug með níu skipum. Hann hafði áður búið lið það að fara í víking. Hákon jarl hafði þá og búið sitt lið og ætlaði og í víking. Hafði hann tólf skip og öll stór.

En er Gull-Haraldur var brott farinn þá segir Hákon jarl konungi: „Nú veit eg eigi nema vér róum leiðangurinn og gjöldum leiðvítið. Nú mun Gull-Haraldur drepa Harald gráfeld. Síðan mun hann taka konungdóm í Noregi. Ætlar þú hann þér þá tryggvan ef þú færð honum svo mikinn styrk? En hann mælti það í vetur fyrir mér að hann mundi drepa þig ef hann kæmist í færi. Nú mun eg vinna Noreg undir þig og drepa Gull-Harald ef þú vilt því heita mér að eg skuli auðveldlega sættast við yður fyrir það. Vil eg þá gerast yðar jarl og binda það svardögum og vinna Noreg undir yður með yðrum styrk, halda síðan landinu undir yðar ríki og gjalda yður skatta, og ertu þá meiri konungur en þinn faðir ef þú ræður tveim þjóðlöndum.“

Þetta semst með þeim konungi og jarli. Fer þá Hákon með liði sínu að leita Gull-Haralds.