Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/12

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Gull-Haraldur kom enn til tals við Hákon.

Segir jarl honum að hann hefir nú fylgt hans málum svo að meiri von er að nú muni konungsríki liggja laust fyrir honum í Noregi. „Skulum við þá,“ segir hann, „halda félagsskap okkrum. Mun eg þá mega veita þér mikið traust í Noregi. Hafðu fyrst það ríki. Haraldur konungur er nú gamall mjög en hann á þann einn son er hann ann lítið og frillusonur er.“

Talar jarl þetta fyrir Gull-Haraldi þar til er hann lætur sér þetta vel líka.

Síðan tala þeir oftlega allir, konungur og jarl og Gull-Haraldur.

Síðan sendi Danakonungur menn sína norður í Noreg á fund Haralds gráfelds. Var sú ferð búin allveglega. Fengu þeir þar góðar viðtökur og fundu Harald konung. Segja þeir þau tíðindi að Hákon jarl er í Danmörk og liggur banvænn og nær örviti og þau önnur tíðindi að Haraldur Danakonungur bauð til sín Haraldi gráfeld, fóstursyni sínum, og taka þar af sér veislur, svo sem þeir bræður höfðu fyrr haft þar í Danmörk, og bað Harald koma til sín og finna sig á Jótlandi.

Haraldur gráfeldur bar þetta mál fyrir Gunnhildi og aðra vini sína. Lögðu menn þar allmisjafnt til. Sumum þótti þessi för ekki trúleg, svo sem þar var mönnum fyrir skipað. Hinir voru fleiri er fýstu að fara skyldi því að þá var svo mikill sultur í Noregi að konungar fengu varlega fætt lið sitt. Þá fékk fjörðurinn það nafn er konungar sátu oftast að hann hét Harðangur.

Árferð var í Danmörk til nokkurrar hlítar. Hugðust menn þaðan mundu föng fá ef Haraldur konungur fengi þar lén og yfirsókn. Var það ráðið áður sendimenn fóru í brott að Haraldur konungur mundi koma til Danmerkur um sumarið á fund Danakonungs og taka af honum þenna kost sem bauð Haraldur konungur.