Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/11

Úr Wikiheimild

Hákon jarl hafði nú af nýju hinar mestu áhyggjur og ráðagerðir og lét fá menn vera í húsinu hjá sér.

Fám dögum síðar kom Haraldur konungur til jarls og taka þeir þá tal. Spyr konungur ef jarl hafi hugsað þá ræðu er þeir komu á fyrra dags.

„Þar hefi eg,“ segir jarl, „vakað um dag og nótt síðan og finnst mér það helst ráð að þú hafir og stýrir ríki því öllu er faðir þinn átti og þú tókst eftir hann en fá Haraldi frænda þínum í hendur annað konungsríki, það er hann megi sæmdarmaður af verða.“

„Hvert er það ríki,“ segir konungur, „er eg má heimillega fá Haraldi ef eg hefi óskert Danaveldi?“

Jarl segir: „Það er Noregur. Konungar þeir, er þar eru, eru illir öllu landsfólki. Vill hver maður þeim illt sem vert er.“

Konungur segir: „Noregur er land mikið og hart fólk og er illt að sækja við útlendan her. Gafst oss svo þá er Hákon varði landið. Létum vér lið mikið en varð engi sigur unninn. Er Haraldur Eiríksson fóstursonur minn og knésetningur.“

Þá segir jarl: „Löngu vissi eg það að þér höfðuð oft veittan styrk Gunnhildarsonum en þeir hafa yður þó engu launað nema illu. Vér skulum komast miklu léttlegar að Noregi en berjast til með allan Danaher. Sendu boð Haraldi fóstursyni þínum. Bjóð honum að taka af þér land og lén það sem þeir höfðu fyrr hér í Danmörk. Stefn honum á þinn fund. Nú má Gull-Haraldur þá litla stund afla ríkis í Noregi af Haraldi konungi gráfeld.“

Konungur segir að þetta mun kallað illt verk að svíkja fósturson sinn.

„Það munu Danir kalla,“ segir jarl, „að betra er það skipti að drepa víking norrænan heldur en bróðurson sinn danskan.“

Tala þeir nú hér um langa hríð þar til er þetta semst með þeim.