Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/10

Úr Wikiheimild

Gull-Haraldur undi þá miklu verr en áður. Hann hafði þá ekki ríki heldur en fyrr en reiði konungs. Kom hann þá til Hákonar, vinar síns, og kærði sín vandræði fyrir honum og bað hann heillaráða ef til væru, þau er hann mætti ríki ná, sagði að hann hafði það helst hugsað að sækja ríki með styrk og vopnum.

Hákon bað hann það fyrir engum manni mæla svo að spyrðist, „liggur þar líf yðart við. Hugsa þetta með sjálfum þér til hvers þú munt fær verða. Þarf til slíkra stórræða að maður sé djarfur og öruggur, spara hvorki til góða hluti né illa, að þá megi fram ganga það er upp er tekið. En hitt er ófært að hefja upp stór ráð og leggja niður síðan með ósæmd.“

Gull-Haraldur svarar: „Svo skal eg þetta upp taka tilkallið að eigi skal eg mínar hendur til spara að drepa konung sjálfan, ef eg kem í færi, með því er hann vill synja mér þess ríkis er eg á að hafa að réttu.“

Skilja þeir þá ræðu sína.

Haraldur konungur gekk þá til fundar við Hákon og taka þeir tal sitt. Segir konungur jarli hvert ákall Gull-Haraldur hefir haft við hann til ríkis og svör þau er hann veitti, segir svo að hann vill fyrir engan mun minnka ríki sitt „en ef Gull-Haraldur vill nokkuð halda á þessu tilkalli þá er mér lítið fyrir að láta drepa hann því að eg trúi honum illa ef hann vill eigi af þessu láta.“

Jarl svarar: „Það hygg eg að Haraldur hafi svo fremi þetta upp kveðið að hann muni eigi þetta láta niður falla. Er mér þess von ef hann reisir ófrið hér í landi að honum verði gott til liðs og mest fyrir sakir vinsælda föður hans. En það er yður hin mesta ófæra að drepa frænda yðarn því að allir munu hann kalla saklausan að svo búnu. Eigi vil eg og það mitt ráð kalla að þú gerir þig minna konung en faðir þinn var, Gormur. Jók hann og mjög sitt ríki en minnkaði í engan stað.“

Þá segir konungur: „Hvert er þá þitt ráð Hákon? Skal eg eigi miðla ríki og ráða eigi af hendi mér þenna ugg?“

„Við skulum finnast nokkurum dögum síðar,“ segir Hákon jarl, „vil eg hugsa áður þetta vandamál og veita þá nokkurn úrskurð.“

Gekk þá konungur í brott og allir hans menn.