Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/9

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Hákon jarl Sigurðarson var með Haraldi Gormssyni Danakonungi um veturinn eftir er hann hafði flúið Noreg fyrir Gunnhildarsonum.

Hákon hafði svo stórar áhyggjur um veturinn að hann lagðist í rekkju og hafði andvökur miklar, át og drakk það einu er hann mátti halda við styrk sinn. Þá sendi hann menn sína leynilega norður í Þrándheim til vina sinna og lagði ráð fyrir þá að þeir skyldu drepa Erling konung er þeir mættu við komast, sagði að hann mundi aftur hverfa til ríkis síns þá er sumraði. Þann vetur drápu Þrændir Erling sem fyrr er ritað.

Með Hákoni og Gull-Haraldi var kær vinátta. Bar Haraldur fyrir Hákon ráðagerðir sínar. Sagði Haraldur að hann vildi þá setjast að landi og vera eigi lengur á herskipum. Spurði hann Hákon hvað hann hygði, hvort Haraldur konungur mundi vilja skipta ríki við hann ef hann krefði.

„Það hygg eg,“ segir Hákon, „að Danakonungur muni engra varna þér réttinda en þó veistu þá gerr þetta mál ef þú ræðir fyrir konungi. Vænti eg að þú fáir eigi ríkið ef þú krefur eigi.“

Brátt eftir þessa ræðu talaði Gull-Haraldur við Harald konung svo að nær voru margir ríkismenn, beggja vinir. Krafði þá Gull-Haraldur Harald konung að hann skipti ríki við hann í helminga svo sem burðir hans voru til og ætt þar í Danaveldi.

Við þetta ákall varð Haraldur konungur reiður mjög, sagði að engi maður krefði þess Gorm konung, föður hans, að hann skyldi gerast hálfkonungur yfir Danaveldi, eigi heldur hans föður Hörða-Knút eða Sigurð orm í auga eða Ragnar loðbrók, gerði sig þá svo reiðan og óðan að ekki mátti við hann mæla.