Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/25

Úr Wikiheimild

Ólafur Tryggvason hafði verið um veturinn í Vindlandi sem fyrr er ritað. Hann fór um veturinn til þeirra héraða þar á Vindlandi er legið höfðu undir Geiru drottningu og höfðu þá undan horfið allri hlýðni og skattgjöfum þannug. Þar herjar Ólafur og drap marga menn, brenndi fyrir sumum, tók fé mikið og lagði undir sig þau ríki, fór síðan aftur til borgar sinnar.

Snemma um vorið bjó Ólafur skip sín og sigldi síðan í haf. Hann sigldi undir Skáni, veitti þar uppgöngu en landsmenn söfnuðust saman og héldu orustu og hafði Ólafur sigur og fékk herfang mikið. Síðan sigldi hann austur til Gotlands. Þar tók hann kaupskip er Jamtur áttu. Þeir veittu vörn mikla og lauk svo að Ólafur hrauð skipið og drap mart manna en tók fé allt. Þriðju orustu átti hann á Gotlandi. Hafði Ólafur þar sigur og fékk mikið herfang.

Svo segir Hallfreður vandræðaskáld:

Endr lét Jamta kindir
allvaldr í styr falla,
vandist hann, og Vinda
végrimmr, á það snimma.
Hættr var hersa drottinn
hjördjarfr Gota fjörvi.
Gullskerði frá eg gerðu
geirþey á Skáneyju.