Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/26

Úr Wikiheimild

Ótta keisari dró saman her mikinn. Hann hafði lið af Saxlandi og Frakklandi, Fríslandi og af Vindlandi fylgdi honum Búrisláfur konungur með mikinn her og í liði var með honum Ólafur Tryggvason mágur hans. Keisari hafði riddaraher mikinn og miklu meira fótgönguher. Hann hafði og af Holtsetalandi mikinn her.

Haraldur Danakonungur sendi Hákon jarl með Norðmannaher þann sem honum fylgdi suður til Danavirkis að verja þar landið.

Svo segir í Velleklu:

Hitt var auk, er eykir
aurborðs á vit norðan
und sigrrunni svinnum
sunnr Danmarkar runnu,
og hólmfjöturs hjálmi
Hörða valdr um faldinn,
Dofra, danskra jöfra,
dróttinn, fund um sótti.
Og við frost að freista
fémildr konungr vildi
myrk- Hlóðynjar -markar
morðálfs þess er kom norðan,
þá er valserkjar virki
veðrhirði bað stirðan
fyr hlym-Njörðum hurða
Hagbarða gramr varða.

Ótta keisari kom með her sinn sunnan til Danavirkis en Hákon jarl varði með sínu liði borgarveggina. Danavirki er svo háttað að firðir tveir ganga í landið sínum megin landsins hvor en milli fjarðarbotna höfðu Danir gert borgarvegg mikinn af grjóti og torfi og viðum og grafið díki breitt og djúpt fyrir utan en kastalar fyrir borgarhliðum. Þá varð orusta mikil.

Þess getur í Velleklu:

Varat í gegn, þótt gerði
garð-Rögnir styr harðan,
gengilegt að ganga,
geirrásar, her þeira,
þá er með Frísa fylki
fór gunn-Viður sunnan
kvaddi vígs, og Vinda
vogs blakkriði, Frakka.

Hákon jarl setti fylkingar yfir öll borgarhlið en hitt var þó meiri hlutur liðs er hann lét fara allt með borgarveggjunum og verja þar sem helst var að sótt. Féll þar mart af keisarans liði en þeir fengu ekki unnið að borginni. Snýr þá keisari í brott og leitaði þar ekki lengur til.

Svo segir í Velleklu:

Þrymr varð logs, þar er lögðu
leikmiðjungar, Þriðja,
arngreddir varð, odda,
andvígr, saman randir.
Sundfaxa kom Söxum
sæki-Þróttr á flótta.
Þar er svo að gramr með gumnum
garð yrþjóðum varði.

Eftir þessa orustu fór Hákon jarl aftur til skipa sinna og ætlaði þá að sigla norður aftur í Noreg en honum gaf eigi byr. Lá hann þá út í Limafirði.