Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/27

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar höfundur Snorri Sturluson
27. Skírður Haraldur konungur Gormsson og Hákon jarl

Ótta keisari snýr þá her sínum til Slés. Dregur hann þar að sér skipaher, flytur þar liðið yfir fjörðinn á Jótland. En er það spyr Haraldur Danakonungur þá fer hann í móti með sinn her. Og verður þar orusta mikil og að lyktum fær keisari sigur en Danakonungur flýði undan til Limafjarðar og fór út í Mársey. Fóru þá menn milli þeirra konungs og var komið griðum á og stefnulagi. Fundust þeir Ótta keisari og Danakonungur í Mársey. En þá boðaði Poppó, biskup heilagur, trú fyrir Haraldi konungi og hann bar glóanda járn í hendi sér og sýndi Haraldi konungi hönd sína óbrunna. Síðan lét Haraldur konungur skírast með allan Danaher.

Haraldur konungur hafði áður orð send Hákoni jarli þá er konungur sat í Mársey að jarl skyldi koma til liðveislu við hann. Var jarl þá kominn til eyjarinnar er konungur hafði skírast látið. Sendir þá konungur orð að jarl skyldi koma til fundar við hann.

En er þeir hittast þá nauðgar konungur jarli til að láta skírast. Var þá Hákon jarl skírður og þeir menn allir er þar fylgdu honum. Fékk þá konungur í hendur honum presta og aðra lærða menn og segir að jarl skal láta skíra allt lið í Noregi. Skildust þeir þá. Fer Hákon jarl út til hafs og bíður þar byrjar.

En er veður það kemur er honum þótti sem hann mundi í haf bera þá skaut hann á land upp öllum lærðum mönnum en hann sigldi þá út á haf en veður gekk til útsuðurs og vesturs. Siglir jarl þá austur í gegnum Eyrarsund. Herjar hann þá á hvorttveggja land. Síðan siglir hann austur fyrir Skáneyjarsíðu og herjaði þar og hvar sem hann kom við land.

En er hann kom austur fyrir Gautasker þá lagði hann að landi. Gerði hann þá blót mikið. Þá komu þar fljúgandi hrafnar tveir og gullu hátt. Þá þykist jarl vita að Óðinn hefir þegið blótið og þá mun jarl hafa dagráð til að berjast. Þá brennir jarl skip sín öll og gengur á land upp með liði sínu öllu og fór allt herskildi.

Þá kom að móti honum Óttar jarl. Hann réð fyrir Gautlandi. Áttu þeir saman orustu mikla. Fær þar Hákon jarl sigur en Óttar jarl féll og mikill hluti liðs með honum. Hákon jarl fer um Gautland hvorttveggja og allt með herskildi til þess er hann kemur í Noreg, fer síðan landveg allt norður í Þrándheim.

Frá þessu segir í Velleklu:

Flótta gekk til fréttar
felli-Njörðr á velli.
Draugr gat dólga Ságu
dagráð Héðins váða.
Og haldboði hildar
hrægamma sá ramma.
Týr vildi sá týna
teinlautar fjör Gauta.
Háði jarl, þar er áðan
engi mann und ranni,
hyrjar þing, að herja,
hjörlautar, kom Sörla.
Bara maðr lyngs en lengra
loftvarðaðar barða,
allt vann gramr um gengið
Gautland, frá sjá randir.
Valföllum hlóð völlu,
varð ragna konr gagni,
hríðar ás, að hrósa,
hlaut Óðinn val, Fróða.
Hver sé if, nema jöfra
ættrýri goð stýra?
Rammaukin kveð eg ríki
rögn Hákonar magna.