Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/31

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
31. Skírðist Ólafur konungur í Syllingum

Ólafur Tryggvason, þá er hann lá í Syllingum, spurði hann að þar í eyjunni var spámaður nokkur, sá er sagði fyrir óorðna hluti, og þótti mörgum mönnum það mjög eftir ganga. Gerðist Ólafi forvitni á að reyna spádóm manns þess. Hann sendi þann af mönnum sínum er fríðastur var og mestur og bjó hann sem veglegast og bað hann segja að hann væri konungur því að Ólafur var þá frægur orðinn af því um öll lönd, að hann var fríðari og göfuglegri og meiri en allir menn aðrir. En síðan er hann fór úr Garðaríki hafði hann eigi meira af nafni sínu en kallaði sig Óla og kvaðst vera gerskur.

En er sendimaður kom til spámannsins og sagðist vera konungur þá fékk hann þessi andsvör: „Ekki ertu konungur en það er ráð mitt að þú sért trúr konungi þínum.“

Ekki sagði hann fleira þessum manni. Fór sendimaður aftur og segir Ólafi og fýsti Ólaf þess að meir að finna þenna mann er hann heyrði slík andsvör hans og tók nú ifa af honum að hann væri eigi spámaður. Fór þá Ólafur á hans fund og átti tal við hann og spurði eftir hvað spámaður segði Ólafi fyrir hvernug honum mundi ganga til ríkis eða annarrar hamingju.

Einsetumaðurinn svaraði með helgum spádómi: „Þú munt verða ágætur konungur og ágæt verk vinna. Þú munt mörgum mönnum til trúar koma og skírnar. Muntu bæði þér hjálpa í því og mörgum öðrum. Og til þess að þú efist eigi um þessi mín andsvör þá máttu það til marks hafa: Þú munt við skip þín svikum mæta og flokkum og mun á bardaga rætast og muntu týna nokkuru liði og sjálfur sár fá og muntu af því sári banvænn vera og á skildi til skips borinn. En af þessu sári muntu heill verða innan sjö nátta og brátt við skírn taka.“

Síðan fór Ólafur ofan til skipa sinna og þá mætti hann þar ófriðarmönnum þeim er hann vildu drepa og lið hans og fóru þeirra viðskipti svo sem einsetumaður hafði sagt honum, að Ólafur var sár borinn á skip út og svo að hann var heill á sjö nóttum. Þóttist þá Ólafur vita að þessi maður mundi honum sanna hluti sagt hafa og það að hann var sannur spámaður, hvaðan af sem hann hefði þann spádóm.

Fór þá Ólafur annað sinn að finna þenna mann, talaði þá mart við hann, spurði þá vendilega hvaðan honum kom sú speki er hann sagði fyrir óorðna hluti. Einsetumaður segir að sjálfur guð kristinna manna lét hann vita allt það er hann forvitnaðist og segir þá Ólafi mörg stórmerki guðs. Og af þeim fortölum játti Ólafur að taka skírn og svo var að Ólafur var skírður þar og allt föruneyti hans. Dvaldist hann þar mjög lengi og nam rétta trú og hafði þaðan með sér presta og aðra lærða menn.