Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/30

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Síðan hélt Ólafur Tryggvason til Englands og herjaði víða um landið. Hann sigldi allt norður til Norðimbralands og herjaði þar. Þaðan hélt hann norður til Skotlands og herjaði þar víða. Þaðan sigldi hann til Suðureyja og átti þar nokkurar orustur. Síðan hélt hann suður til Manar og barðist þar. Hann herjaði og víða um Írland. Þá hélt hann til Bretlands og herjaði víða það land og svo þar er kallað er Kumraland. Þaðan sigldi hann vestur til Vallands og herjaði þar. Þá sigldi hann vestan og ætlaði til Englands. Þá kom hann í eyjar þær er Syllingar heita vestur í hafið frá Englandi.

Svo segir Hallfreður vandræðaskáld:

Gerðist ungr við Engla
ofvægr konungr bægja.
Naddskúrar réð nærir
Norðimbra sá morði.
Eyddi úlfa greddir
ógnblíðr Skotum víða,
gerði seims, með sverði,
sverðleik í Mön skerðir.
Ýdrógar lét ægir
eyverskan her deyja,
Týr var tjörva dýrra
tírar gjarn, og Íra.
Barði breskrar jarðar
byggjendr og hjó tyggi,
gráðr þvarr geira hríðar
gjóði, kumrskar þjóðir.

Ólafur Tryggvason var fjóra vetur í hernaði síðan er hann fór af Vindlandi, til þess er hann kom í Syllingar.