Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/39

Úr Wikiheimild

Sigvaldi jarl hélt liði sínu norður um Stað, lagði fyrst til Hereyja. Landsmenn, þótt víkingar fyndu, þá sögðu þeir aldrei satt til hvað jarlar höfðust að. Víkingar herjuðu hvar sem þeir fóru. Þeir lögðu utan að Höð, runnu þar upp og herjuðu, færðu til skipa bæði man og bú en drápu karla þá er vígt var að. En er þeir fóru ofan til skipa þá kom til þeirra gamall bóndi einn en þar fór nær sveit Búa.

Bóndinn mælti: „Þér farið óhermannlega, rekið til strandar kýr og kálfa. Væri yður meiri veiður að taka björninn er nú er nær kominn á bjarnbásinn.“

„Hvað segir karl?“ segja þeir. „Kanntu nokkuð segja oss til Hákonar jarls?“

Bóndi segir: „Hann reri í gær inn í Hörundarfjörð. Hafði jarl eitt skip eða tvö, eigi voru fleiri en þrjú, og hafði ekki til yðar spurt.“

Þeir Búi taka þegar á hlaup til skipanna og láta laust allt herfangið.

Búi mælti: „Njótum vér nú er vér höfum fengið njósn og verum næstir sigrinum.“

En er þeir koma á skipin róa þeir þegar út. Kallaði Sigvaldi jarl á þá og spurði tíðinda. Þeir segja að Hákon jarl var þar inn í fjörðinn. Síðan leysir jarl flotann og róa fyrir norðan eyna Höð og svo inn um eyna.