Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/40
Hákon jarl og Eiríkur jarl sonur hans lágu í Hallkelsvík. Var þar saman kominn her þeirra allur. Höfðu þeir hálft annað hundrað skipa og höfðu þá spurt að Jómsvíkingar höfðu lagt utan að Höð. Reru þá jarlar sunnan að leita þeirra en er þeir koma þar sem heitir Hjörungavogur þá finnast þeir. Skipa þá hvorirtveggju sínu liði til atlögu. Var í miðju liði merki Sigvalda jarls. Þar skipaði Hákon jarl til atlögu. Hafði Sigvaldi jarl tuttugu skip en Hákon sex tigu. Í liði Hákonar jarls voru höfðingjar Þórir hjörtur af Hálogalandi, annar Styrkár af Gimsum. Í annan fylkingararm var Búi digri og Sigurður bróðir hans með tuttugu skipum. Þar lagði í móti Eiríkur jarl Hákonarson sex tigum skipa og með honum þessir höfðingjar: Guðbrandur hvíti af Upplöndum og Þorkell leira, víkverskur maður. Í annan fylkingararm lagði fram Vagn Ákason með tuttugu skipum en þar í mót Sveinn Hákonarson og með honum Skeggi af Yrjum af Upphaugi og Rögnvaldur úr Ærvík af Staði með sex tigu skipa.
Svo segir í Eiríksdrápu:
- Enn í gegn að gunni
- glæheims skriðu mævar,
- renndi langt með landi
- leiðangr, Dana skeiðar,
- þær er jarl und árum
- ærins gulls á Mæri,
- barms rak vigg und vörmum
- valkesti, hrauð flestar.
Eyvindur skáldaspillir segir og svo í Háleygjatali:
- Þar var minnstr
- meinvinnöndum
- Yngvifreys
- öndverðan dag
- fagnafundr,
- er flota þeystu
- jarðráðendr
- að eyðendum
- þá er sverðálfr
- sunnan kníði
- lagar stóð
- að liði þeirra.
Síðan lögðu þeir saman flotann og tókst þar hin grimmasta orusta og féll mart af hvorumtveggjum og miklu fleira af Hákonar liði því að Jómsvíkingar börðust bæði hraustlega og djarflega og snarplega og skutu gegnum skjölduna. Og svo mikill vopnaburður var að Hákoni jarli að brynja hans var slitin til ónýts svo að hann kastaði af sér.
Þess getur Tindur Hallkelsson:
- Varða gims sem gerði
- Gerðr bjúglimum herða,
- gnýr óx Fjölnis fúra,
- farleg sæing jarli,
- þá er hringfám Hanga
- hrynserk, viðum brynju
- hruðust riðmarar Róða
- rastar, varð að kasta.
- Þars í sundr á sandi
- Sörla blés fyr jarli,
- þess hefir seggja sessi,
- serk hringofinn, merki.