Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/4

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Hákon og þeir sendimenn Gunnhildar komu á Oprustaði snemma um morgun og spyrja að Ástríði og syni hennar. Eiríkur segir að hún er ekki þar. Þeir Hákon rannsökuðu bæinn og dvöldust lengi um daginn og fá nokkura njósn um ferð Ástríðar, ríða þá sömu leið og koma síð um kveldið til Bjarnar eiturkveisu í Skaun, taka þar gisting. Þá spyr Hákon Björn ef hann kynni honum nokkuð segja til Ástríðar.

Hann segir að þar komu menn um daginn og báðu gistingar „en eg rak þau brott og munu þau vera herbergð hér nokkur í þorpinu.“

Verkmaður Þorsteins fór um kveldið úr skógi og kom til Bjarnar því að það var á leið hans. Varð hann var við að þar voru gestir og svo hvert erindi þeirra var. Hann segir Þorsteini bónda.

En er lifði þriðjungur nætur vakti Þorsteinn upp gesti sína og bað þau brott fara, mælti stygglega. En er þau voru komin á veg út úr garðinum þá segir Þorsteinn þeim að sendimenn Gunnhildar voru að Bjarnar og fóru þeirra að leita. Þau báðu hann hjálpar nokkurrar. Hann fékk þeim leiðtoga og vist nokkura. Fylgdi sá þeim fram á skóginn þar sem var vatn nokkuð og hólmi einn í, reyri vaxinn. Þau máttu vaða í hólminn út. Þar fálu þau sig í reyrinum.

Snemma dags reið Hákon frá Bjarnar í byggðina og hvar sem hann kom spurði hann eftir Ástríði. En er hann kom til Þorsteins þá spyr hann ef þau séu þar komin. Hann segir að þar voru menn nokkurir og fóru móti degi austur á skóginn. Hákon bað Þorstein fara með þeim er honum var leið kunnig eða leyni. Þorsteinn fór með þeim en er hann kom í skóginn vísaði hann þeim þvert frá því sem Ástríður var. Fóru þeir þann dag allan að leita og fundu þau eigi, fara aftur síðan og segja Gunnhildi sitt erindi.

Ástríður og hennar föruneyti fóru leið sína og komu fram í Svíþjóð til Hákonar gamla. Dvaldist Ástríður þar og sonur hennar Ólafur langa hríð í góðum fagnaði.