Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/5

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Gunnhildur konungamóðir spyr að Ástríður og Ólafur sonur hennar eru í Svíaveldi. Þá sendi hún enn Hákon og gott föruneyti með honum austur til Eiríks Svíakonungs með góðar gjafar og vináttumál. Var þar við sendimönnum vel tekið. Voru þeir þar í góðu yfirlæti.

Síðan ber Hákon upp fyrir konungi erindi sín, segir að Gunnhildur hafði til þess orð send að konungur skyldi styrkt fá hann svo að hann hafi með sér Ólaf Tryggvason til Noregs, „vill Gunnhildur fóstra hann.“

Konungur fær honum menn og ríða þeir á fund Hákonar gamla. Býður Hákon Ólafi að fara við sér með vinsamlegum orðum mörgum. Hákon gamli svarar vel og segir að móðir hans skal ráða ferð hans en Ástríður vill fyrir engan mun að sveinninn fari. Fara sendimenn í brott og segja svo búið Eiríki konungi.

Síðan búast sendimenn að fara heim, biðja enn konung að fá sér styrk nokkurn að hafa sveininn brott hvort sem Hákon gamli vill eða eigi. Fær konungur þeim enn sveit manna. Koma sendimenn til Hákonar gamla og krefja þá að sveinninn fari við þeim. En er því var seint tekið þá hafa þeir fram mikilmæli og heita afarkostum og láta reiðulega. Þá hleypur fram þræll einn er Bursti er nefndur og vill ljósta Hákon og komast þeir nauðulega í brott óbarðir af þrælinum, fara síðan heim til Noregs og segja sína ferð Gunnhildi og svo að þeir hafa séð Ólaf Tryggvason.