Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/6

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Sigurður hét bróðir Ástríðar, sonur Eiríks bjóðaskalla. Hann hafði þá lengi verið af landi brott og verið austur í Garðaríki með Valdimar konungi. Hafði Sigurður þar metnað mikinn. Fýstist Ástríður að fara þannug til Sigurðar bróður síns. Fékk Hákon gamli henni gott föruneyti og öll góð föng. Fór hún með kaupmönnum nokkurum. Þá hafði hún verið tvo vetur með Hákoni gamla. Ólafur var þá þrevetur.

En er þau héldu austur í hafið þá komu að þeim víkingar. Það voru Eistur. Hertóku þeir bæði menn og fé en drápu suma en sumum skiptu þeir með sér til ánauðar. Þar skildist Ólafur við móður sína og tók við honum Klerkón, eistneskur maður, og þeim Þórólfi og Þorgísli.

Klerkóni þótti Þórólfur gamall til þræls, þótti og ekki forverk í honum og drap hann en hafði sveinana með sér og seldi þeim manni er Klerkur hét og tók fyrir hafur einn vel góðan. Hinn þriðji maður keypti Ólaf og gaf fyrir vesl gott eða slagning. Sá hét Réas en kona hans hét Rékon en sonur þeirra Rékoni. Þar var Ólafur lengi og vel haldinn og unni búandi honum mikið. Ólafur var sex vetur á Eistlandi í þessari útlegð.