Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/7

Úr Wikiheimild

Sigurður Eiríksson kom til Eistlands í sendiferð Valdimars konungs af Hólmgarði og skyldi hann heimta þar í landi skatta konungs. Fór Sigurður ríkulega með marga menn og mikið fé. Hann sá á torgi svein fríðan mjög og skildi að sá mundi þar útlendur og spyr hann að nafni og ætt sinni.

Hann nefndi sig Ólaf en Tryggva Ólafsson föður sinn en móður sína Ástríði dóttur Eiríks bjóðaskalla. Þá kannaðist Sigurður við að sveinninn var systurson hans. Þá spurði Sigurður sveininn hví hann væri þar kominn. Ólafur sagði honum alla atburði um sitt mál. Sigurður bað hann fylgja sér til Réas búanda. En er hann kom þar þá keypti hann sveinana báða, Ólaf og Þorgísl, og hafði með sér til Hólmgarðs og lét ekki uppvíst um ætt Ólafs en hélt hann vel.