Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/47

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Síðan fór Þórir vestur til Írlands til Dyflinnar og spurði þar til Ála. Var hann þar með Ólafi konungi kvaran mági sínum. Síðan kom Þórir sér í tal við Ála. Þórir var maður orðspakur. En er þeir höfðu mjög lengi talað þá tók Áli að spyrja af Noregi, fyrst frá Upplendingakonungum og hverjir þeir voru þá á lífi eða hvað ríki þeir höfðu. Hann spurði og um Hákon jarl, hver vinsæld hans var í landinu.

Þórir segir: „Jarl er svo ríkur maður að engi þorir annað að mæla en hann vill en það veldur að hvergi er í annan stað til að ganga. En þér satt til að segja þá veit eg margra göfugra manna skaplyndi og svo alþýðunnar, að þess væru fúsastir og búnastir að nokkur konungur kæmi þar til ríkis af ætt Haralds hins hárfagra. En vér sjáum nú engan þann til og mest fyrir þá sök að það er nú reynt að illa dugir að berjast við Hákon jarl.“

En er þeir töluðu þetta oft þá lætur Ólafur í ljós fyrir Þóri nafn sitt og ætt og spyr hann ráðs hvað hann hyggi ef Ólafur fer til Noregs, hvort hann ætlar að bændur muni vilja taka við honum að konungi. Þórir eggjaði hann ákaflega þessar ferðar og lofaði hann mjög og atgervi hans. Tók Ólafur þá að fýsast mjög að fara til ættleifðar sinnar.

Siglir Ólafur þá vestan með fimm skipum, fyrst til Suðureyja. Þórir var þar í för með honum. Síðan sigldi hann til Orkneyja. Sigurður jarl Hlöðvisson lá þá í Rögnvaldsey í Ásmundarvogi með eitt langskip og ætlaði að fara yfir á Katanes. Þá sigldi Ólafur sínu liði vestan að eyjunum og lagði þar til hafnar því að Péttlandsfjörður var eigi fær. En er konungur vissi að jarl lá þar fyrir þá lét hann jarl kalla til tals við sig.

En er jarl kom til tals við konung þá höfðu þeir fátt talað áður konungur segir að jarl skyldi skírast láta og allt landsfólk hans en að öðrum kosti skyldi hann þá deyja þegar í stað en konungur kveðst mundu fara með eld og usla yfir eyjarnar og eyða land það nema fólkið kristnaðist.

En svo sem jarl var þá við kominn þá kaus hann þann af að taka skírn. Var hann þá skírður og allt það fólk er þar var með honum. Síðan svarði jarl konungi eiða og gerðist hans maður, fékk honum son sinn til gíslingar, er hét Hvelpur eða Hundi, og hafði Ólafur hann til Noregs með sér.

Sigldi Ólafur þá austur í haf og sigldi af hafi utan að Morstur, gekk þar fyrst á land í Noregi og lét hann messu þar syngja í landtjaldi. En síðan var í þeim sama stað kirkja ger.

Þórir klakka segir konungi að það eina var honum ráð að gera ekki bert um hver hann var og láta enga njósn fara fyrir sér og fara sem ákaflegast á fund jarls og láta hann óbúinn við verða. Ólafur konungur gerir svo að hann fer norður náttfari og dagfari svo sem leiði gaf og gerði ekki landsfólkið vart við ferð sína hver þar fór. En er hann kom norður til Agðaness þá spurði hann að Hákon jarl er inn í firðinum og það með að hann var ósáttur við bændur. En er Þórir heyrði þetta sagt þá var mjög annan veg en hann hugði því að eftir Jómsvíkingaorustu voru allir menn í Noregi fullkomnir vinir Hákonar jarls fyrir sigur þann er hann hafði fengið og frelsað land allt af ófriði. En nú var illa að borið að höfðingi mikill er kominn í landið en bændur voru ósáttir við jarlinn.