Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/49

Úr Wikiheimild

Ólafur Tryggvason hélt utan í fjörðinn með fimm langskipum en þar reri innan í móti Erlendur sonur Hákons jarls með þremur skipum. En er skipin nálguðust þá grunaði þá Erlend að ófriður mundi vera og snúa að landi. En er Ólafur sá langskipin eftir firðinum fara og róa í móti sér þá hugði hann þar mundu fara Hákon jarl og bað róa eftir þeim sem ákafast. En er þeir Erlendur voru mjög komnir að landi reru þeir á grunn og hljópu þegar fyrir borð og leituðu til lands. Þá renndu að skip Ólafs. Ólafur sá hvar lagðist maður fríður forkunnlega. Ólafur greip hjálmunvölinn og kastar að þeim manni og kom höggið í höfuð Erlendi syni jarls svo að hausinn brotnaði til heila. Lét Erlendur þar líf sitt. Þeir Ólafur drápu þar mart manna en sumt kom á flótta, sumt tóku þeir og gáfu grið og höfðu af tíðindasögn. Var þá Ólafi sagt að bændur höfðu rekið Hákon jarl og hann var forflótti fyrir þeim og dreift var öllum flokki hans.

Síðan koma bændur á fund Ólafs og verða hvorir öðrum fegnir og taka þegar samlag sitt. Taka bændur hann til konungs yfir sig og taka allir eitt ráð, að leita eftir Hákoni jarli, og fara upp í Gaulardal og þykir það líkast að jarl muni vera á Rimul ef hann er nokkuð á bæjum því að Þóra var þar kærstur vinur hans í þeim dal. Fara þeir þannug og leita jarls úti og inni og finna hann eigi.

Og þá átti Ólafur húsþing úti í garðinum. Hann stóð upp á stein þann hinn mikla er þar stóð hjá svínabælinu. Þá talaði Ólafur og varð það í ræðu hans að hann mundi þann mann gæða bæði fé og virðing er Hákoni jarli yrði að skaða. Þessa ræðu heyrðu jarl og Karkur. Þeir höfðu ljós hjá sér.

Jarl mælti: „Hví ertu svo bleikur en stundum svartur sem jörð. Er eigi það að þú viljir svíkja mig?“

„Eigi,“ segir Karkur.

„Við vorum fæddir á einni nótt,“ segir jarl, „skammt mun og verða milli dauða okkars.“

Þá fór Ólafur konungur á brott er kveldaði. En er náttaði þá hélt jarl vöku yfir sér en Karkur sofnaði og lét illilega. Þá vakti jarl hann og spurði hvað hann dreymdi.

Hann segir: „Eg var nú á Hlöðum og lagði Ólafur Tryggvason gullmen á háls mér.“

Jarl svarar: „Þar mun Ólafur láta hring blóðrauðan um háls þér ef þú finnur hann. Vara þú þig svo. En af mér muntu gott hljóta svo sem fyrr hefir verið og svík mig eigi.“

Síðan vöktu þeir báðir svo sem hvor vekti yfir öðrum. En í móti degi sofnaði jarl og brátt lét hann illa og svo mikið varð að því að jarl skaut undir sig hælunum og hnakkanum svo sem hann mundi vilja upp rísa og lét hátt og ógurlega. En Karkur varð hræddur og felmsfullur og greip kníf mikinn af linda sér og skaut gegnum barka jarli og skar út úr. Það var bani Hákonar jarls.

Síðan sneið Karkur höfuð af jarli og hljóp í brott og kom eftir um daginn inn á Hlaðir og færði höfuð jarls Ólafi konungi. Hann segir og þá þessa atburði um ferðir þeirra Hákonar jarls sem nú er áður ritið. Síðan lét Ólafur konungur leiða hann í brott og höggva höfuð af.