Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/52

Úr Wikiheimild

Loðinn er maður nefndur, víkverskur, auðigur og ættaður vel. Hann var oftlega í kaupferðum en stundum í hernaði.

Það var eitt sumar að Loðinn fór kaupferð í Austurveg. Átti hann einn skip það og hafði mikinn kaupeyri. Hann hélt til Eistlands og var þar í kaupstefnu um sumarið. En þá er markaðurinn stóð þá var þangað fluttur margs konar kaupskapur. Þar kom man mart falt. Þar sá Loðinn konu nokkura er seld hafði verið mansali. Og er hann leit á konuna þá kenndi hann að þar var Ástríður Eiríksdóttir er átt hafði Tryggvi konungur og var þá ólík því sem fyrr er hann sá hana. Hún var þá föl og grunnleit og illa klædd. Hann gekk til hennar og spurði hvað ráðs hennar var.

Hún segir: „Þungt er frá því að segja. Eg em seld mansali en hingað höfð til sölu.“

Síðan könnuðust þau við og vissi Ástríður skyn á honum. Bað hún síðan ef hann vildi kaupa hana og hafa heim með sér til frænda sinna.

„Eg mun gera þér kost á um það,“ segir hann, „eg mun flytja þig til Noregs ef þú vilt giftast mér.“

En með því að Ástríður var þá nauðulega við komin og það annað að hún vissi að Loðinn var maður stórættaður, vaskur og auðigur, þá heitir hún honum þessu til útlausnar sér. Síðan keypti Loðinn Ástríði og hafði heim með sér til Noregs og fékk hennar þar með frænda ráði.

Þeirra börn voru þau Þorkell nefja og Ingiríður, Ingigerður. Dætur Ástríðar og Tryggva konungs voru þær Ingibjörg og Ástríður. Synir Eiríks bjóðaskalla voru þeir Sigurður, Karlshöfuð, Jósteinn og Þorkell dyrðill og voru allir göfgir menn og auðgir og áttu bú austur í landi. Bræður tveir bjuggu í Vík austur. Hét annar Þorgeir en annar Hyrningur. Þeir fengu dætra Loðins og Ástríðar.