Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/53

Úr Wikiheimild

Haraldur Gormsson Danakonungur, þá er hann hafði við kristni tekið, þá sendi hann boð um allt ríki sitt að allir menn skyldu skírast láta og snúast til réttrar trúar. Hann fylgdi sjálfur því boði og veitti þar styrk og refsing að þar er eigi gengi við ella. Hann sendi tvo jarla í Noreg með lið mikið er svo hétu ... Þeir skyldu boða kristni í Noregi. Það gekk við í Víkinni þar er ríki Haralds konungs stóð yfir og skírðist þá mart landsfólk.

En eftir dauða Haralds þá fór brátt Sveinn tjúguskegg sonur hans í hernað, bæði í Saxland og Frísland og að lyktum til Englands. En menn þeir í Noregi, er við kristni höfðu tekið, þá hurfu þeir aftur til blóta svo sem fyrr og menn gerðu norður í landi.

En er Ólafur Tryggvason var konungur orðinn í Noregi þá dvaldist hann lengi um sumarið í Víkinni. Komu þar margir til hans frændur hans en sumir mágar en margir höfðu verið miklir vinir föður hans og var honum þar fagnað með allmiklum kærleik.

Þá kallar Ólafur til tals við sig móðurbræður sína, Loðin stjúpföður sinn, mága sína Þorgeir og Hyrning, bar síðan fyrir þá með hinum mesta alhuga það mál að þeir skyldu sjálfir undir taka með honum og fylgja síðan með öllum krafti, að hann vill kristniboð upp hefja um allt ríki sitt, segir að hann skal því áleiðis koma að kristna allt í Noregi eða deyja að öðrum kosti: „Eg skal gera yður alla mikla menn og ríka því að eg trúi yður best fyrir sakir frændsemi eða annarra tengda.“

Allir þeir játuðu þessu að gera hvað sem hann bauð og fylgja honum til þess alls er hann vildi og allir þeir menn er þeirra ráðum vilja fylgja. Gerði Ólafur konungur þegar bert fyrir alþýðu að hann vill bjóða kristni öllum mönnum í ríki sínu. Tóku þeir þegar fyrstir undir að játa þessu boði er áður höfðu undirgengið. Voru þeir og ríkastir af þeim mönnum er þá voru viðstaddir og gerðu allir aðrir að þeirra dæmum. Voru þá skírðir menn allir austur um Víkina.

Fór þá konungur norður í Víkina og bauð öllum mönnum að taka við kristni en þeim er í móti mæltu veitti hann stórar refsingar, drap suma, suma lét hann hamla, suma rak hann af landi á brott. Kom þá svo að um það ríki allt, er fyrr hafði stýrt Tryggvi konungur faðir hans, og svo það, er átt hafði Haraldur grenski frændi hans, gekk það fólk allt undir kristniboð það er Ólafur boðaði og varð það sumar og eftir um veturinn alkristið um Víkina.