Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/54

Úr Wikiheimild

Ólafur konungur fór snemma um vorið út í Víkina og hafði lið mikið, fór þá norður á Agðir. En hvar sem hann átti þing við bændur þá boðaði hann öllum mönnum að skírast og gengu menn undir kristni því að engi fékkst uppreist af bóndum móti konungi og var fólkið skírt hvar sem hann fór.

Menn þeir voru á Hörðalandi margir og göfgir er komnir voru af ætt Hörða-Kára. Hann átti fjóra sonu. Einn var Þorleifur spaki. Annar Ögmundur, faðir Þórólfs skjálgs, föður Erlings af Sóla. Þriðji var Þórður, faðir Klypps hersis er drap Sigurð slefu Gunnhildarson. Fjórði Ölmóður, faðir Áskels, föður Ásláks Fitjaskalla. Þessi áttbogi var þá mestur og göfgastur á Hörðalandi.

En er þeir frændur spurðu til vandkvæðis þessa, að konungur fór austan með landi og hafði lið mikið og braut forn lög á mönnum en allir sættu refsingum og afarkostum, þeir er í móti mæltu, þeir frændur gerðu stefnulag milli sín og skulu gera ráð fyrir sér því að þeir vita að konungur mun brátt koma á fund þeirra. Og semst það með þeim að þeir skulu koma allir fjölmennt til Gulaþings og stefna þar fund við Ólaf konung Tryggvason.