Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/55

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
55. Kristnað Rogaland

Ólafur konungur stefndi þing þegar hann kom á Rogaland. En er búendum kom þingboð þá safnast þeir fjölmennt saman með alvæpni. En er þeir koma saman taka þeir tal og ráðagerð og ætla til þess þrjá menn, þá er málsnjallastir voru í þeirra flokki, að svara Ólafi konungi á þinginu og tala móti honum og það með að þeir vilja eigi ganga undir ólög þótt konungur bjóði þeim.

En er bændur koma til þings og þing var sett þá stóð Ólafur konungur upp og talaði fyrst blíðlega til bónda. Fannst það þó í hans máli að hann vill að þeir taki við kristni, bað þá til þess fögrum orðum en að lyktum lét hann það fylgja við þá er í móti mæltu og eigi vildu undirganga boð hans að þeir mundu sæta af honum reiði og refsingum og hörðum afarkostum hvar sem hann mætti við komast.

En er konungur lauk máli sínu þá stóð upp sá af bóndum er einna var snjallastur og fyrst var til þess tekinn að svara skyldi Ólafi konungi. En er hann vildi til máls taka þá setur að honum hósta og þröngva svo mikinn að hann fékk engu orði upp komið og sest hann niður. Þá stendur upp annar bóndi og vill sá eigi fallast láta andsvörin þótt hinum fyrra hefði eigi vel til tekist. En er sá hefur upp mál sitt þá var hann svo stamur að hann fékk engu orði upp komið. Tóku þá allir að hlæja er á heyrðu. Settist þá bóndi niður. Þá stóð upp hinn þriðji og vill tala í móti Ólafi konungi. En er sá tók til máls var hann svo hás og rámur að engi maður heyrði það er hann talaði og settist hann niður.

Þá varð engi til af bóndum að mæla í móti konungi. En er bændur fengu engi til andsvara við konung þá varð engi uppreist þeirra til mótstöðu við konung. Kom þá svo að allir játtu því er konungur bauð. Var þá skírt þingfólk það allt áður konungur skildist þar við.