Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/57

Úr Wikiheimild

Ólafur konungur lét taka hauk er Ástríður átti og lét plokka af fjaðrar allar og sendi henni síðan.

Þá mælti Ástríður: „Reiður er bróðir minn nú.“

Síðan stóð hún upp og gekk til konungs. Hann fagnaði henni vel. Þá mælti Ástríður, segir að hún vill að konungur sjái fyrir hennar ráði slíkt sem hann vill.

„Það hugði eg,“ segir konungur, „að eg mundi fá vald til að gera þann tiginn mann sem eg vil hér í landi.“

Lét konungur þá kalla til tals Ölmóð og Erling og alla þá frændur. Var þá talað bónorð þetta. Lauk svo að Ástríður var föstnuð Erlingi. Síðan lét konungur setja þingið og bauð búendum kristni. Var þá Ölmóður og Erlingur forgangsmaður að flytja þetta konungsmál og þar með allir frændur þeirra. Bar þá engi maður traust til að mæla í móti. Var þá skírt það allt fólk og kristnað.