Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/63

Úr Wikiheimild

Ólafur konungur fór er voraði út eftir Víkinni og tók veislur að stórbúum sínum og sendi boð allt um Víkina að hann vill lið hafa úti um sumarið og fara norður í land. Síðan fór hann norður á Agðir. Og er á leið langaföstu þá sótti hann norður á Rogaland og kom páskaaftan í Körmt á Ögvaldsnes. Var þar búin fyrir honum páskaveisla. Hann hafði nær þrjú hundruð manna.

Þá sömu nótt kom þar við eyna Eyvindur kelda. Hann hafði langskip alskipað. Voru það allt seiðmenn og annað fjölkynngisfólk. Eyvindur gekk upp af skipi og sveit hans og mögnuðu fjölkynngi sína. Gerði Eyvindur þeim huliðshjálm og þokumyrkur svo mikið að konungur og lið hans skyldi eigi mega sjá þá. En er þeir komu mjög svo til bæjarins á Ögvaldsnesi þá gerðist ljós dagur. Varð þá mjög annan veg en Eyvindur hafði ætlað. Þá kom mjörkvi sá er hann hafði gert með fjölkynngi yfir hann og hans föruneyti svo að þeir sáu eigi heldur augum en hnakka og fóru allt í hring og kring. En varðmenn konungs sáu þá hvar þeir fóru og vissu eigi hvað lið það var. Var þá sagt konungi. Stóð hann þá upp og allt liðið og klæddist. En er konungur sá hvar þeir Eyvindur fóru bað hann sína menn vopna sig og ganga til og vita hvað mönnum það væri. En er konungsmenn kenndu þar Eyvind þá tóku þeir hann höndum og alla þá og leiddu þá til konungs. Segir þá Eyvindur allan atburð um sína ferð.

Síðan lét konungur taka þá alla og flytja í flæðisker og binda þá þar. Lét Eyvindur svo líf sitt og allir þeir. Er það síðan kallað Skrattasker.