Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/67

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
67. Veisla á Hlöðum

Ólafur konungur lá skipum sínum í Nið og hafði þrjá tigu skipa og frítt lið og mikið en sjálfur konungur var oftlega á Hlöðum með hirðsveit sína. En er mjög leið að því er blótið skyldi vera inn á Mærini þá gerði Ólafur konungur veislu mikla á Hlöðum, sendi boð inn á Strind og upp í Gaulardal og út í Orkadal og bauð til sín höfðingjum og öðrum stórbóndum. En er veisla var búin og boðsmenn höfðu til sótt þá var þar hið fyrsta kveld veisla fögur og veitt allkappsamlega. Voru menn mjög drukknir. En eftir um nóttina sváfu þá allir menn í ró þar. Um morguninn eftir er konungur var klæddur lét hann syngja sér tíðir og er messu var lokið þá lét konungur blása til húsþings. Gengu þá allir menn hans af skipum og fóru til þings.

En er þing var sett stóð konungur upp og talaði og mælti svo: „Vér áttum þing inn á Frostu. Bauð eg þá búendum að þeir skyldu láta skírast en þeir buðu mér þar í mót að eg skyldi hverfa til blóta með þeim svo sem gert hafði Hákon konungur Aðalsteinsfóstri. Kom það ásamt með oss að vér skyldum finnast inn á Mærini og gera þar blót mikið. En ef eg skal til blóta hverfa með yður þá vil eg gera láta hið mesta blót, það sem títt er, og blóta mönnum. Vil eg eigi til þess velja þræla eða illmenni. Skal til þess velja að fá goðunum hina ágætustu menn. Nefni eg til þess Orm lygru af Meðalhúsum, Styrkár af Gimsum, Kár af Grýtingi, Ásbjörn, Þorberg af Örnesi, Orm af Lyxu, Halldór af Skerðingsteðju“ og þar með nefnir hann aðra fimm þá er ágætastir voru, segir svo að hann vill þessum blóta til árs og friðar og lét þegar veita þeim atgöngu.

En er bændur sáu að þeir höfðu eigi liðskost við konungi þá biðja þeir sér griða og bjóða allt ráð sitt á vald konungs. Semst það á milli þeirra að allir bændur, þeir er þar voru komnir, létu skírast og veittu konungi svardaga til þess að halda rétta trú en leggja niður blótskap allan. Hafði konungur þá menn þessa alla í boði sínu, allt þar til er þeir fengu sonu sína eða bræður eða aðra náfrændur í gísling til konungs.