Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/68

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Ólafur konungur fór með öllu liði sínu inn í Þrándheim. En er hann kom inn á Mærini þá voru þar komnir allir höfðingjar Þrænda, þeir er þá stóðu mest í móti kristninni, og höfðu þar með sér alla stórbændur þá er fyrr höfðu haldið upp blótum í þeim stað. Var þar þá fjölmennt og eftir því sem fyrr hafði verið á Frostuþingi. Lét þá konungur krefja þings og gengu hvorirtveggju með alvæpni til þings. En er þing var sett þá talaði konungur og bauð mönnum kristni.

Járn-Skeggi svaraði máli konungs af hendi bónda. Segir hann að bændur vildu enn sem fyrr að konungur bryti ekki lög á þeim. „Viljum vér konungur,“ segir hann, „að þú blótir sem hér hafa gert aðrir konungar fyrir þér.“

Að hans ræðu gerðu bændur mikinn róm og segja að þeir vildu allt vera láta sem Skeggi mælti. Þá segir konungur að hann vill fara í hofið og sjá siðu þeirra er þeir blóta. Búendum líkar það vel. Fara til hofsins hvorirtveggju.