Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/69

Úr Wikiheimild

Ólafur konungur gengur nú í hofið og fáir menn með honum og nokkurir af bóndum. En er konungur kom þar sem goðin voru þá sat þar Þór og var mest tignaður af öllum goðum, búinn með gulli og silfri. Ólafur konungur hóf upp refði gullbúið er hann hafði í hendi og laust Þór svo að hann féll af stallinum. Síðan hljópu að konungsmenn og skýfðu ofan öllum goðum af stöllunum. En meðan konungur var inni í hofinu þá var drepinn Járn-Skeggi úti fyrir hofsdurunum og gerðu það konungsmenn.

En er konungur kom til liðsins þá bauð hann bóndum tvo kosti, annan þann að þeir skyldu þá allir við kristni taka en að öðrum kosti halda við hann bardaga. En eftir lát Skeggja varð engi forgangsmaður að í bónda liði að reisa merki í móti Ólafi konungi. Varð hinn kostur upp tekinn að ganga til konungs og hlýða því er hann bauð. Þá lét Ólafur konungur skíra fólk allt það er þar var og tók gíslar af bóndum til þess að þeir skyldu halda kristni sína.

Síðan lét Ólafur konungur fara menn sína um öll fylki í Þrándheimi. Mælti þá engi maður í móti kristninni. Var þá skírt allt fólk í Þrændalögum.