Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/82

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Þá kom Mikjálsmessa. Lét konungur þá halda mjög, lét syngja messu hátíðlega. Íslendingar gengu til og hlýddu söng fögrum og klukknahljóði. En er þeir komu til skipa sinna sagði hver þeirra hvernug líkað hafði aðferð kristinna manna. Kjartan lét vel yfir en flestir aðrir löstuðu. En það er sem mælt er að mörg eru konungs eyru. Var konungi þetta sagt.

Þá gerði hann þegar um daginn mann eftir Kjartani og bað hann koma til sín. Kjartan gekk til konungs með nokkura menn. Fagnaði konungur honum vel. Kjartan var allra manna mestur og fríðastur og vel orði farinn. En er þeir konungur höfðu fám orðum við skipst þá bauð konungur Kjartani að taka við kristni. Kjartan segir að hann vill því eigi níta ef hann skal þá hafa vináttu konungs. Konungur heitir honum vináttu sinni fullkominni og semja þeir konungur þetta sáttmál milli sín.

Annan dag eftir var Kjartan skírður og Bolli Þorleiksson frændi hans og allt föruneyti þeirra. Var Kjartan og Bolli í boði konungs meðan þeir voru í hvítavoðum og var konungur allkær til þeirra.