Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/83
Höfundur: Snorri Sturluson
83. Skírður Hallfreður vandræðaskáld
Ólafur konungur gekk einn dag úti á stræti en menn nokkurir gengu í móti þeim og sá er fyrstur gekk fagnaði konungi. Konungur spurði þann mann að nafni. Sá nefndist Hallfreður.
Þá mælti konungur: „Ertu skáldið?“
Hann segir: „Kann eg yrkja.“
Þá mælti konungur: „Þú munt vilja taka kristni og gerast síðan minn maður.“
Hann segir: „Kostur skal á því vera, að eg mun skírast, ef þú konungur veitir mér sjálfur guðsifjar. Af engum manni öðrum vil eg það þiggja.“
Konungur segir: „Eg vil það gera.“
Var þá Hallfreður skírður og hélt konungur honum undir skírn.
Síðan spurði konungur Hallfreð: „Viltu nú gerast minn maður?“
Hallfreður segir: „Eg var fyrr hirðmaður Hákonar jarls. Nú vil eg ekki gerast þér handgenginn og engum öðrum höfðingjum nema þú heitir mér því að mig hendi enga þá hluti er þú rekir mig frá þér.“
„Svo að einu er mér sagt,“ segir konungur, „frá þér Hallfreður að þú ert ekki svo vitur eða spakur að mér er örvænt að þú gerir þá hluti er eg vil fyrir engan mun við sæma.“
„Dreptu mig þá,“ segir Hallfreður.
Konungur mælti: „Þú ert vandræðaskáld en minn maður skaltu nú vera.“
Hallfreður svarar: „Hvað gefur þú konungur mér að nafnfesti ef eg skal heita vandræðaskáld?“
Konungur gaf honum sverð og fylgdi engi umgerð.
Konungur mælti: „Yrk nú vísu um sverðið og lát sverð vera í hverju vísuorði.“
Hallfreður kvað:
- Eitt er sverð, það er, sverða,
- sverðauðgan mig gerði.
- Fyrir svip-Njörðum sverða
- sverðótt mun nú verða.
- Muna vansverðað verða,
- verðr em eg þriggja sverða,
- jarðar leggs ef yrði
- umgerð að því sverði.
Þá fékk konungur honum umgerð.
Af Hallfreðar kvæðum tökum vér vísindi og sannindi, það er þar er sagt frá Ólafi konungi Tryggvasyni.