Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/85

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
85. Frá íþróttum Ólafs konungs

Ólafur konungur var mestur íþróttamaður í Noregi, þeirra er menn hafa frá sagt, um alla hluti. Hverjum manni var hann sterkari og fimari og eru þar margar frásagnir ritaðar um það. Ein sú er hann gekk í Smalsarhorn og festi skjöld sinn í ofanvert bjargið og enn það er hann hjálp hirðmanni sínum, þeim er áður hafði klifið bjargið svo að hvorki mátti komast upp né ofan, en konungur gekk til hans og bar hann undir hendi sér ofan á jöfnu. Ólafur konungur gekk eftir árum útbyrðis er menn hans reru á Orminum og hann lék að þremur handsöxum svo að jafnan var eitt á lofti og henti æ meðalkaflann. Hann vó jafnt báðum höndum og skaut tveim spjótum senn.

Ólafur konungur var allra manna glaðastur og leikinn mjög, blíður og lítillátur, ákafamaður mikill um alla hluti, stórgjöfull, sundurgerðarmaður mikill, fyrir öllum mönnum um fræknleik í orustum, allra manna grimmastur þá er hann var reiður og kvaldi óvini sína mjög. Suma brenndi hann í eldi, suma lét hann ólma hunda rífa í sundur, suma lemja eða kasta fyrir hábjörg. Voru af þeim sökum vinir hans ástúðgir við hann en óvinir hans hræddust við hann. Var því mikil framkvæmd hans að sumir gerðu hans vilja með blíðu og vináttu en sumir fyrir hræðslu sakir.