Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/89

Úr Wikiheimild

Eiríkur jarl Hákonarson og bræður hans og margir aðrir göfgir frændur þeirra fóru af landi á brott eftir fall Hákonar jarls. Fór Eiríkur jarl austur í Svíþjóð á fund Ólafs Svíakonungs og fengu þeir þar góðar viðtökur. Veitti Ólafur konungur þar jarli friðland og veislur stórar svo að hann mátti þar vel halda sig í landi og lið sitt.

Þess getur Þórður Kolbeinsson:

Meinremmir, brá, manna
margs fýsa sköp, varga,
ljóða litlu síðar
læ Hákonar ævi.
En til lands þess er lindar
láðstafr vegið hafði
hraustr, þá er her fór vestan,
hygg eg komu son Tryggva.
Hafði sér við særi,
slíks var von að honum,
auðs en upp um kvæði
Eiríkr í hug meira.
Sótti reiðr að ráðum,
rann engi því manna,
þrályndi gafst Þrændum,
þrænskr jarl konung sænskan.

Lið mikið sótti af Noregi til Eiríks jarls það er landflótta varð fyrir Ólafi konungi Tryggvasyni. Tók Eiríkur jarl þá það ráð að hann réð sér til skipa og fór í hernað að fá sér fjár og liði sínu. Hann hélt fyrst til Gotlands og lá þar við lengi um sumarið og sætti kaupskipum er sigldu til landsins eða víkingum. Stundum gekk hann upp á landið og herjaði þar víða með sjánum.

Svo segir í Bandadrápu:

Mær vann miklu fleiri
málmhríð jöfur síðan,
eðr frágum það, aðra,
Eiríkr und sig geira,
þá er garðvala gerði
Gotlands vala strandir
Virfils vítt um herjað,
veðrmildr og semr hildi.

Síðan sigldi Eiríkur jarl suður til Vindlands og hitti hann fyrir Staurinum víkingaskip nokkur og lagði til orustu við þá. Þá fékk Eiríkur jarl sigur en drap víkingana.

Svo segir í Bandadrápu:

Stærir lét að Stauri
stafnviggs höfuð liggja,
gramr vélti svo, gumna,
gunnblíðr, og ræðr síðan.
Sleit að sverða móti
svörð víkinga hörðu
unda már fyr eyri,
jarl goðvörðu hjarli.