Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/88

Úr Wikiheimild

Þann vetur eftir er Ólafur konungur hafði komið af Hálogalandi lét hann reisa skip mikið inn undir Hlaðhömrum, það er meira var miklu en önnur þau skip er þá voru í landinu og eru enn þar bakkastokkar þeir svo að sjá má. Þorbergur skafhögg er nefndur sá maður er stafnasmiður var að skipinu en þar voru margir aðrir að, sumir að fella, sumir að telgja, sumir saum að slá, sumir til að flytja viðu. Voru þar allir hlutir vandaðir mjög til. Var skipið bæði langt og breitt og borðmikið og stórviðað.

En er þeir báru skipið borði þá átti Þorbergur nauðsynjaerindi að fara heim til bús síns og dvaldist þar mjög lengi. En er hann kom aftur þá var skipið fullborða. Fór konungur þegar um kveldið og Þorbergur með honum og sjá þá skipið, hvernug orðið sé, og mælti hver maður að aldrei hefði séð langskip jafnmikið eða jafnfrítt. Fer þá konungur aftur í bæinn.

En snemma eftir um morguninn fer konungur enn til skipsins og þeir Þorbergur. Voru þá smiðar þar áður komnir. Stóðu þeir allir og höfðust ekki að. Konungur spurði hví þeir færu svo. Þeir segja að spillt var skipinu og maður mundi gengið hafa frá framstafni til lyftingar og sett í borðið ofan hvert skýlihögg að öðru.

Gekk konungur þá til og sá að satt var, mælti þegar og svarði um að sá maður skyldi deyja ef konungur vissi hver fyrir öfundar sakir hefði spillt skipinu „en sá er mér kann það segja skal mikil gæði af mér hljóta.“

Þá segir Þorbergur: „Eg mun kunna segja yður konungur hver þetta verk mun gert hafa.“

„Mér er eigi þess að öðrum manni meiri von,“ segir konungur, „að þetta happ muni henda en að þér að verða þess vís og kunna mér segja.“

„Segja mun eg þér konungur,“ segir hann, „hver gert hefir. Eg hefi gert.“

Þá svarar konungur: „Þá skaltu bæta svo að jafnvel sé sem áður var. Þar skal líf þitt við liggja.“

Síðan gekk Þorbergur til og telgdi borðið svo að öll gengu úr skýlihöggin. Konungur mælti þá og allir aðrir að skipið væri miklu fríðara á það borð er Þorbergur hafði skorið. Bað konungur hann þá svo gera á bæði borð og bað hann hafa mikla þökk fyrir. Var þá Þorbergur höfuðsmiður fyrir skipinu þar til er gert var.

Var það dreki og ger eftir því sem Ormur sá er konungur hafði haft af Hálogalandi en þetta skip var miklu meira og að öllum hlutum meir vandað. Það kallaði hann Orm hinn langa en hinn Orm hinn skamma. Á Orminum langa voru fjögur rúm og þrír tigir. Höfuðin og krókurinn var allt gullbúið. Svo voru há borðin sem á hafskipum. Það hefir skip verið best gert og með mestum kostnaði í Noregi.