Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/87

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga Tryggvasonar
Höfundur: Snorri Sturluson
87. Fall Guðröðar konungs

Guðröður sonur Eiríks blóðöxar og Gunnhildar hafði verið í hernaði í Vesturlöndum síðan er hann flýði land fyrir Hákoni jarli. En á þessu sumri er nú var áður frá sagt þá er Ólafur konungur Tryggvason hafði fjóra vetur ráðið fyrir Noregi þá kom Guðröður til Noregs og hafði mörg herskip. Hann hafði þá siglt út af Englandi og er hann kom í landvon við Noreg þá stefndi hann suður með landinu þangað er honum var minni von Ólafs konungs. Siglir Guðröður suður til Víkurinnar. En þegar er hann kom til lands tók hann að herja og brjóta undir sig landsfólk en beiddi sér viðtöku.

En er landsmenn sáu að her mikill var kominn á hendur þeim þá leita menn sér griða og sætta og bjóða konungi að þingboð skuli fara yfir land og bjóða honum heldur viðtöku en þola her hans og voru þar lögð frest á meðan þingboð færi yfir. Krafði þá konungur vistagjalds meðan sú bíðandi skyldi vera. En bændur kjósa hinn kost heldur að búa konungi veislur þá stund alla er hann þurfti til þess og tók konungur þann kost að hann fór um land að veislum með sumt lið sitt en sumt gætti skipa hans.

En er þetta spyrja þeir bræður, Hyrningur og Þorgeir, mágar Ólafs konungs, þá safna þeir sér liði og ráða sér til skipa, fara síðan norður í Víkina og koma á einni nótt með liði sínu þar sem Guðröður konungur var á veislu, veita þar atgöngu með eldi og vopnum. Féll þar Guðröður konungur og flestallt lið hans en það er á skipunum hafði verið var sumt drepið en sumt komst undan og flýði víðs vegar. Voru þá dauðir allir synir Eiríks og Gunnhildar.