Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/93
Ólafur konungur stefndi þing í bænum litlu síðar. Hann gerði þá bert fyrir allri alþýðu að hann mun leiðangur hafa úti um sumarið fyrir landi og hann vill nefnd hafa úr hverju fylki bæði að skipum og liði, segir þá hversu mörg skip hann vill þaðan hafa úr firðinum. Síðan gerir hann orðsending bæði norður og suður með landi hið ytra og hið efra og lætur liði út bjóða. Ólafur konungur lætur þá setja fram Orminn langa og öll önnur skip sín, bæði stór og smá. Stýrði hann sjálfur Orminum langa.
Og þá er menn voru þar ráðnir til skipanar þá var þar svo mjög vandað lið og valið að engi maður skyldi vera á Orminum langa eldri en sextugur eða yngri en tvítugur en valdir mjög að afli og hreysti. Þar voru fyrst til skoraðir hirðmenn Ólafs konungs því að það var valið af innanlands mönnum og utanlands allt það er sterkast var og fræknast.