Heimskringla/Ólafs saga Tryggvasonar/94

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Úlfur rauði hét maður er bar merki Ólafs konungs og í stafni var á Orminum og annar Kolbjörn stallari, Þorsteinn oxafótur, Víkar af Tíundalandi bróðir Arnljóts gellina.

Þessir voru á rausninni í söxum: Vakur elfski Raumason, Bersi hinn sterki, Án skyti af Jamtalandi, Þrándur rammi af Þelamörk og Óþyrmir bróðir hans; þeir Háleygir: Þrándur skjálgi, Ögmundur sandi, Hlöðvir langi úr Saltvík, Hárekur hvassi; þeir innan úr Þrándheimi: Ketill hávi, Þorfinnur eisli, Hávarður og þeir bræður úr Orkadal.

Þessir voru í fyrirrúmi: Björn af Stuðlu, Þorgrímur úr Hvini Þjóðólfsson, Ásbjörn og Ormur, Þórður úr Njarðarlög, Þorsteinn hvíti af Oprustöðum, Arnór mærski, Hallsteinn og Haukur úr Fjörðum, Eyvindur snákur, Bergþór bestill, Hallkell af Fjölum, Ólafur drengur, Arnfinnur sygnski, Sigurður bíldur, Einar hörski og Finnur, Ketill rygski, Grjótgarður röskvi.

Þessir voru í krapparúmi: Einar þambarskelfir, hann þótti þeim eigi hlutgengur því að hann var átján vetra, Hallsteinn Hlífarson, Þórólfur, Ívar smetta, Ormur skógarnef.

Og margir aðrir menn mjög ágætir voru á Orminum þótt vér kunnum eigi nefna. Átta menn voru í hálfrými á Orminum og var valið einum manni og einum. Þrír tigir manna voru í fyrirrúmi. Það var mál manna að það mannval er á Orminum var bar eigi minna af öðrum mönnum um fríðleika og afl og fræknleik en Ormurinn af öðrum skipum.

Þorkell nefja bróðir konungs stýrði Orminum skamma. Þorkell dyrðill og Jósteinn móðurbræður konungs höfðu Tranann. Og var hvorttveggja það skip allvel skipað. Ellefu stórskip hafði Ólafur konungur úr Þrándheimi og umfram tvítugsessur og smærri skip.