Heimskringla/Ólafs saga helga/101

Úr Wikiheimild

Þorfinnur jarl spurði það að Brúsi bróðir hans var farinn austur á fund Ólafs konungs að sækja traust af honum. En fyrir því að Þorfinnur hafði verið fyrr á fund Ólafs konungs og komið sér þar í vináttu þá þóttist hann þar eiga vel fyrir búið og vissi að þar mundu margir flutningamenn um hans mál en þó vænti hann að fleiri mundu vera ef hann kæmi sjálfur til. Gerir Þorfinnur jarl það ráð að hann bjóst sem skyndilegast og fór austur til Noregs og ætlaði að sem minnstur skyldi verða misfari þeirra Brúsa og ekki skyldi hans erindi til loka komast áður en Þorfinnur hitti konung. En það var annan veg en jarl hafði ætlað því að þá er Þorfinnur jarl kom á fund Ólafs konungs var lokið og gert allt um sáttmál konungs og Brúsa jarls. Vissi og eigi Þorfinnur jarl að Brúsi hefði upp gefið sitt ríki fyrr en hann var kominn til Ólafs konungs.

Og þegar er þeir hittust, Þorfinnur jarl og Ólafur konungur, þá hóf Ólafur konungur upp sama ákall til ríkis í Orkneyjum sem hann hafði haft við Brúsa jarl og beiddi Þorfinn þess hins sama að hann skyldi játa konungi þeim hluta landa er hann átti áður.

Jarl svarar vel orðum konungs og stillilega og segir svo að honum þótti miklu máli skipta um vingan konungs. „Og ef þér herra þykist þurfa liðveislu mína í mót öðrum höfðingjum þá hafið þér áður fullt til þess unnið en mér er eigi hent að veita yður handgöngu því að eg em áður jarl Skotakonungs og honum lýðskyldur.“

En er konungur fann undandrátt í svörum jarls um þá málaleitan er hann hafði áður upp hafið þá mælti konungur: „Ef þú, jarl, vilt ekki gerast minn maður þá er hinn kostur að eg setji þann mann yfir Orkneyjar er eg vil. En eg vil að þú veitir þá svardaga að kalla ekki til landa þeirra og láta þá í friði vera af þér er eg set yfir löndin. En ef þú vilt hvorngan þenna kost þá mun svo þykja þeim er löndum ræður sem ófriðar muni af þér von vera. Má þér þá eigi undarlegt þykja þótt dalur mæti hóli.“

Jarl svarar og bað hann gefa sér frest að hugsa þetta mál. Konungur gerði svo, gaf jarli stund að ráða um þetta kör við menn sína. Þá beiddi jarl þess að konungur skyldi ljá honum fresta til annars sumars og færi hann fyrst vestur um haf því að heima var ráðuneyti hans en hann var bernskumaður fyrir aldurs sakir. Konungur bað hann þá kjósa.

Þorkell fóstri var þá með Ólafi konungi. Hann sendi mann til Þorfinns jarls leynilega og bað hann eigi það fyrir ætlast, hvatki er honum var í hug, að skiljast svo að sinni við Ólaf konung að þeir væru eigi sáttir svo sem hann var þá kominn í hendur konungi. Af þvílíkum minningum þóttist jarl sjá að einbeygður mundi kostur að láta konung þá fyrir ráða, þótti hinn eigi kostlegur að eiga enga von sjálfur til ættleifðar sinnar en veita til þess svardaga að þeir hefðu í ró ríki það er þar voru ekki til bornir. En fyrir því að honum þótti ósýnt um brottferð sína þá kaus hann það af að ganga til handa konungi og gerast hans maður svo sem Brúsi hafði gert.

Konungur fann það að Þorfinnur var miklu skapstærri en Brúsi og kunni verr pynding þessi. Trúði konungur Þorfinni verr en Brúsa. Sá konungur það að Þorfinnur mundi þykjast styrks eiga von af Skotakonungi þótt hann brygðist í þessu sáttmáli. Skildi konungur það af visku sinni að Brúsi gekk treglega að öllu sáttmáli en mælti það eina um er hann ætlaði sér að halda. En þar er Þorfinnur var, þá er hann hafði ráðið hvern hann vildi upp taka, þá gekk hann glatt að öllum skildaga og dró um það engan hlut sem konungur veitti hin fyrstu ákvæði en það grunaði konung að jarl mundi gera eftir sumar sættir.