Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/107

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
107. Frá blótum Þrænda


Það haust voru sögð Ólafi konungi þau tíðindi innan úr Þrándheimi að bændur hefðu þar haft veislur fjölmennar að veturnóttum. Voru þar drykkjur miklar. Var konungi svo sagt að þar væru minni öll signuð ásum að fornum sið. Það fylgdi og þeirri sögn að þar væri drepið naut og hross og roðnir stallar af blóði og framið blót og veittur sá formáli að það skyldi vera til árbótar. Það fylgdi því að öllum mönnum þótti það auðsýnt að goðin höfðu reiðst því er Háleygir höfðu horfið til kristni.

En er konungur spurði þessi tíðindi þá sendi hann menn inn í Þrándheim og stefndi til sín bóndum þeim er hann réð til nefna.

Maður er nefndur Ölvir á Eggju. Hann var kenndur við bæ þann er hann bjó á. Hann var ríkur maður og ættstór. Hann var höfuðsmaður ferðar þessar af hendi bónda til konungs. Og er þeir koma á konungsfund þá bar konungur á hendur bóndum þessi kennsl.

En Ölvir svarar af hendi bónda og segir að þeir hefðu engar veislur haft það haust nema gildi sín eða hvirfingsdrykkjur en sumir vinaboð. „En það,“ segir hann, „er yður er sagt frá orðtökum vorum Þrændanna þá er vér drekkum þá kunnu allir vitrir menn að varast slíkar ræður en eigi kann eg að synja fyrir heimska menn og ölóða hvað þeir mæla.“

Ölvir var maður málsnjallur og máldjarfur. Varði hann allar þessar ræður við bændur. En að lyktum segir konungur að Innþrændir mundu sér sjálfir bera vitni hvernug þeir eru trúaðir. Fengu bændur þá leyfi til heimfarar. Fóru þeir og þegar er þeir voru búnir.