Heimskringla/Ólafs saga helga/108

Úr Wikiheimild

Síðar um veturinn var konungi sagt að Innþrændir höfðu fjölmennt á Mærini og voru þar blót stór að miðjum vetri. Blótuðu þeir þá til friðar og vetrarfars góðs.

En er konungur þóttist sannfróður um þetta þá sendir konungur menn og orðsending inn í Þrándheim og stefndi bóndum út til bæjar, nefndi enn til menn þá er honum þóttu vitrastir. Bændur áttu þá tal sitt og ræddu sín í milli um orðsending þessa. Voru þeir allir ófúsastir til ferðarinnar er áður höfðu farið um veturinn en við bæn allra bónda þá réð Ölvir til ferðarinnar.

En er hann kom út til bæjar fór hann brátt á konungsfund og tóku þeir tal. Bar konungur það á hendur bóndum að þeir hefðu haft miðsvetrarblót.

Ölvir svarar og segir að bændur voru ósannir að þeirri sök. „Höfðum vér,“ segir hann, „jólaboð og víða í héruðum samdrykkjur. Ætla bændur eigi svo hneppt til jólaveislu sér að eigi verði stór afhlaup og drukku menn það herra lengi síðan. Er á Mærini mikill höfuðstaður og hús stór en byggð mikil umhverfis. Þykir mönnum þar til gleði gott að drekka mörgum saman.“

Konungur svarar fá og var heldur styggur, þóttist vita annað sannara en það er þá var frá borið. Bað konungur bændur aftur fara. „En eg mun,“ segir hann, „þó verða vís hins sanna að þér dyljið og gangið eigi í mót. En hversu sem hér til hefir verið þá gerið slíkt eigi oftar.“

Fóru þá bændur heim og sögðu sína ferð og það að konungur var heldur reiður.