Heimskringla/Ólafs saga helga/121

Úr Wikiheimild

Eftir það er þeir Ólafur konungur og Erlingur Skjálgsson höfðu hist á Ögvaldsnesi þá hófst með þeim af nýju sundurþykkið og óx til þess er þar af gerðist fullur fjandskapur milli þeirra.

Fór Ólafur konungur að veislum um Hörðaland um vorið og þá fór hann upp á Vörs því að hann spurði að fólk var þar lítt trúað. Hann átti þing við bændur þar sem á Vangi heitir. Komu þar bændur fjölmennt og með alvæpni. Bauð konungur þeim að taka við kristni en búendur buðu bardaga í mót og kom svo að hvorirtveggju fylktu liði sínu. Var þá svo um bændur að þeim skaut skelk í bringu og vildi engi fremstur standa og varð það þá að lyktum er þeim gegndi betur að þeir gengu til handa konungi og tóku kristni. Skildist konungur eigi þaðan fyrr en þar var alkristnað orðið.

Það var einn dag að konungur reið leið sína og söng sálma sína en er hann kom gegnt haugunum nam hann stað og mælti: „Þau skal segja orð mín maður manni að eg kalla ráð að aldregi síðan fari Noregskonungur í milli þessa hauga.“

Er það og sögn manna að flestir konungar hafi það varast síðan.

Þá fór Ólafur konungur út í Ostrarfjörð, kom þar til skipa sinna, fór þá norður í Sogn og tók þar veislur um sumarið.

En er hausta tók sneri hann inn í fjörðinn, fór þaðan upp á Valdres. Þar var áður heiðið. Konungur fór sem ákaflegast upp til vatnsins, kom þar á óvart bóndum og tók þar skip þeirra, gekk þar á sjálfur með öllu liði sínu. Síðan skar hann þingboð og settist þingið svo nær vatninu að konungur átti allan kost skipa ef hann þættist þurfa. Bændur sóttu þingið með her manns alvopnaðan. Konungur bauð þeim kristni en búendur æptu í móti og báðu hann þegja, gerðu þegar gný mikinn og vopnabrak.

En er konungur sá að þeir vildu ekki til hlýða þess er hann kenndi þeim og það annað að þeir höfðu þann múg manns er ekki stóðst við þá sneri hann ræðunni, spurði þá að ef nokkurir væru þeir menn á þinginu er sakir þær ættust við er þeir vildu að hann setti í milli þeirra. Það fannst brátt í orðum búenda að margir voru þar rangsáttir sín í milli er þá höfðu samhlaupa orðið að mæla móti kristninni.

En þegar er búendur tóku að kæra sín vandræði þá aflaði hver þeirra sér sveitar að flytja sitt mál fram. Gekk því þann dag allan. Að kveldi var slitið þinginu.

Þegar er búendur höfðu spurt að Ólafur konungur hafði farið um Valdres og hann var kominn í byggð þá höfðu þeir látið fara herör og stefnt saman þegn og þræl, fóru með her þann í móti konungi en þá var víða aleyða í byggðinni. Bændur héldu safnaðinum þá er þinginu sleit. Þess varð konungur vís. En er hann kom á skip sín þá lét hann róa um nóttina yfir þvert vatnið. Þar lét hann upp ganga í byggðina, lét þar brenna og ræna.

Eftir um daginn reru þeir nes frá nesi. Lét konungur allt brenna byggðina. En þeir búendur er í safnaðinum voru, þá er þeir sáu reyk og loga til bæja sinna, þá urðu þeir lausir í flokkinum. Stefndi þá hver í brott og leitaði heim ef hann mætti finna hyski sitt. En þegar er rof kom í liðið þá fór hver að öðrum til þess er allt riðlaðist í smáflokka. En konungur reri yfir vatnið og brenndi þá á hvorutveggja landi. Komu þá bændur til hans og báðu miskunnar, buðu handgöngu sína. Gaf hann hverjum manni grið er til hans kom og þess krafði og svo fé þeirra. Mælti þá engi maður við kristni. Lét konungur þá skíra fólkið og tók gíslar af búendum.

Dvaldist konungur þar lengi um haustið, lét draga skipin um eið á milli vatna. Fór konungur lítt um land uppi frá vötnum því að hann trúði illa bóndum. Hann lét þar gera kirkjur og vígja og setti kennimenn. En er konungi þótti von frera þá sótti hann á land upp, kom þá fram á Þótni.

Þess getur Arnór jarlaskáld er Ólafur konungur hafði brennt á Upplöndum þá er hann orti um Harald bróður hans:

Gengr í ætt það er yngvi
Upplendinga brenndi,
þjóð galt ræsis reiði,
rönn, þess er fremstr er manna.
Vildut öflgar aldir,
áðr var stýrt til váða,
grams dólgum fékkst gálgi,
gagnprýðanda hlýða.

Síðan fór Ólafur konungur norður um Dala allt til fjalls og nam eigi staðar fyrr en hann kom í Þrándheim og allt til Niðaróss, bjó þar til veturvistar og sat þar um veturinn. Sá var hinn tíundi vetur konungdóms hans.

Áður um sumarið fór Einar þambarskelfir úr landi og fyrst vestur til Englands, hitti þar Hákon jarl mág sinn, dvaldist þar með honum um hríð. Síðan fór Einar á fund Knúts konungs og þá af honum stórar gjafar. Eftir það fór Einar suður um sæ og allt suður til Rúmaborgar og kom aftur annað sumar, fór þá til búa sinna. Hittust þeir Ólafur konungur þá ekki.