Heimskringla/Ólafs saga helga/122

Úr Wikiheimild

Álfhildur hét kona er kölluð var konungsambátt. Hún var þó af góðum ættum komin. Hún var kvinna fríðust. Hún var með hirð Ólafs konungs. En það vor varð það til tíðinda að Álfhildur var með barni en það vissu trúnaðarmenn konungs að hann mundi vera faðir barns þess.

Svo bar að eina nótt að Álfhildi stóð sótt. Var þar fátt manna viðstatt, konur nokkurar og prestur og Sighvatur skáld og fáir aðrir. Álfhildur var þunglega haldin og gekk henni nær dauða. Hún fæddi sveinbarn og var það um hríð er þau vissu óglöggt hvort líf var með barninu. En er barnið skaut öndu upp og allómáttulega þá bað prestur Sighvat fara að segja konungi.

Hann svarar: „Eg þori fyrir engan mun að vekja konunginn því að hann bannar það hverjum manni að bregða svefni fyrir honum fyrr en hann vaknar sjálfur.“

Presturinn svarar: „Nauðsyn ber nú til að barn þetta fái skírn. Mér sýnist það allólíflegt.“

Sighvatur mælti: „Heldur þori eg til þess að ráða að þú skírir barnið en eg veki konung og mun eg ávítum upp halda og gefa nafn.“

Svo gerðu þeir að sveinn sá var skírður og hét Magnús.

Eftir um morguninn þá er konungur var vaknaður og klæddur var honum sagt allt frá þessum atburðum. Þá lét konungur kalla til sín Sighvat.

Konungur mælti: „Hví varstu svo djarfur að þú lést skíra barn mitt fyrr en eg vissi?“

Sighvatur svarar: „Því að eg vildi heldur gefa guði tvo menn en einn fjandanum.“

Konungur mælti: „Fyrir hví mundi það við liggja?“

Sighvatur svarar: „Barnið var að komið dauða og mundi það fjandans maður ef það dæi heiðið en nú var það guðs maður. Hitt er og annað að eg vissi þótt þú værir mér reiður að þar mundi eigi meira við liggja en líf mitt en ef þú vilt að eg týni því fyrir þessa sök þá vænti eg að eg sé guðs maður.“

Konungur mælti: „Hví léstu sveininn Magnús heita? Ekki er það vort ættnafn.“

Sighvatur svarar: „Eg hét hann eftir Karla-Magnúsi konungi. Þann vissi eg mann bestan í heimi.“

Þá mælti konungur: „Gæfumaður ertu mikill Sighvatur. Er það eigi undarlegt að gæfa fylgi visku. Hitt er kynlegt sem stundum kann verða að sú gæfa fylgir óviskum mönnum að óviturleg ráð snúast til hamingju.“

Var þá konungur allglaður.

Sveinn sá fæddist upp og var brátt efnilegur er aldur fór yfir hann.