Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/123

Úr Wikiheimild


Það vor hið sama fékk Ólafur konungur í hönd Ásmundi Grankelssyni sýslu á Hálogalandi hálfa til móts við Hárek í Þjóttu en hann hafði áður haft alla, suma að veislu en suma að léni. Ásmundur hafði skútu og á nær þremur tigum manna og vopnaða vel.

En er Ásmundur kom norður þá hittust þeir Hárekur. Segir Ásmundur honum hvernug konungur hafði til skipað um sýsluna, lét þar fylgja jartegnir konungs.

Hárekur segir svo að konungur mundi ráða hver sýslu hefði. „En þó gerðu ekki svo hinir fyrri höfðingjar að minnka vorn rétt er ættbornir erum til ríkis að hafa af konungum en fá þá í hendur búendasonum þeim er slíkt hafa fyrr ekki með höndum haft.“

En þótt það fyndist á Háreki að honum þótti þetta móti skapi þá lét hann Ásmund við sýslu taka sem konungur hafði orð til send.

Fór þá Ásmundur heim til föður síns, dvaldist þar litla hríð, fór þá síðan í sýslu sína norður á Hálogaland.

En er hann kom norður í Langey þá bjuggu þar bræður tveir. Hét annar Gunnsteinn en annar Karli. Þeir voru menn auðgir og virðingamenn miklir. Gunnsteinn var búsýslumaður og eldri þeirra bræðra. Karli var fríður sýnum og skartsmaður mikill en hvortveggi þeirra var íþróttamaður um marga hluti. Ásmundur fékk þar góðar viðtökur og dvaldist þar um hríð, heimti þar saman úr sýslunni slíkt er fékkst.

Karli ræddi það fyrir Ásmundi að hann vildi fara með honum suður á fund Ólafs konungs og leita sér hirðvistar. Ásmundur fýsti þess ráðs og hét umsýslu sinni við konung að Karli fengi það erindi sem hann beiddist til. Réðst hann þá til föruneytis með Ásmundi.

Ásmundur spurði það að Ásbjörn Selsbani hafði farið suður í Vogastefnu og hafði byrðing er hann átti og nær tuttugu menn á og hans var þá sunnan von. Þeir Ásmundur fóru leið sína suður með landi og höfðu andviðri og þó vind lítinn. Sigldu skip í móti þeim, þau er voru af Vogaflota. Spurðu þeir þá af hljóði að um farar Ásbjarnar. Var þeim svo sagt að hann mundi þá sunnan á leið. Þeir Ásmundur og Karli voru rekkjufélagar og var þar hið kærsta.

Það var einn dag er þeir Ásmundur reru fram eftir sundi nokkuru þá sigldi byrðingur móti þeim. Var það skip auðkennt. Það var hlýrbirt, steint bæði hvítum steini og rauðum. Þeir höfðu segl stafað með vendi.

Þá mælti Karli við Ásmund: „Oft ræðir þú um að þér sé forvitni mikil á að sjá hann Ásbjörn Selsbana. Eigi kann eg skip að kenna ef eigi siglir hann þar.“

Ásmundur svarar: „Ger svo vel lagsmaður, seg mér til ef þú kennir hann.“

Þá renndust hjá skipin og mælti Karli: „Þar situr hann Selsbani við stýrið í blám kyrtli.“

Ásmundur svarar: „Eg skal fá honum rauðan kyrtil.“

Síðan skaut hann Ásmundur að Ásbirni Selsbana spjóti og kom á hann miðjan, flaug í gegnum hann svo að fast stóð fram í höfðafjölinni. Féll Ásbjörn dauður frá stýrinu. Fóru síðan hvorirtveggju leiðar sinnar.

Fluttu þeir lík Ásbjarnar norður á Þrándarnes. Lét þá Sigríður senda eftir Þóri hund til Bjarkeyjar. Kom hann til er búið var um lík Ásbjarnar eftir sið þeirra.

En er þeir fóru í brott valdi Sigríður vinum sínum gjafir. Hún leiddi Þóri til skips en áður þau skildust mælti hún: „Svo er nú Þórir að Ásbjörn sonur minn hlýddi ástráðum þínum. Nú vannst honum eigi líf til að launa það sem vert var. Nú þótt eg sé verr til fær en hann mundi vera þá skal eg þó hafa vilja til. Nú er hér gjöf er eg vil gefa þér og vildi eg að þér kæmi vel í hald.“ Það var spjót. „Hér er nú spjót það er stóð í gegnum Ásbjörn son minn og er þar enn blóðið á. Máttu þá heldur muna að það mun hæfast og sár það er þú sást á Ásbirni bróðursyni þínum. Nú yrði þér þá skörulega ef þú létir þetta spjót svo af höndum að það stæði í brjósti Ólafi digra. Nú mæli eg það um,“ segir hún, „að þú verðir hvers manns níðingur ef þú hefnir eigi Ásbjarnar.“

Sneri hún þá í brott. Þórir varð svo reiður orðum hennar að hann mátti engu svara og eigi gáði hann spjótið laust láta og eigi gáði hann bryggjunnar og mundi hann ganga á kaf ef eigi tækju menn til hans og styddu hann er hann gekk út á skipið. Það var málaspjót ekki mikið og gullrekinn falurinn á. Reru þeir Þórir þá í brott og heim til Bjarkeyjar.

Ásmundur og þeir félagar fóru leið sína til þess er þeir komu suður til Þrándheims og á fund Ólafs konungs. Sagði Ásmundur þá konungi hvað til tíðinda hafði gerst í förum hans. Gerðist Karli hirðmaður konungs. Héldu þeir Ásmundur vel vináttu sína. En orðtök þau er þeir Ásmundur og Karli höfðu mælst við áður víg Ásbjarnar varð, þá fór það ekki leynt því að þeir sjálfir sögðu konungi frá því. En þar var sem mælt er að hver á vin með óvinum. Voru þeir þar sumir er slíkt hugfestu og þaðan af kom það til Þóris hunds.