Heimskringla/Ólafs saga helga/124

Úr Wikiheimild

Ólafur konungur bjóst um vorið er á leið og bjó skip sín. Síðan fór hann um sumarið suður með landi, átti þing við bændur, sætti menn og siðaði land, tók og konungsskyldir hvar sem hann fór. Fór konungur um haustið allt austur til landsenda. Hafði Ólafur konungur þá kristnað land þar sem stórhéruð voru. Þá hafði hann og skipað lögum um land allt. Hann hafði þá og lagt undir sig Orkneyjar svo sem fyrr var sagt.

Hann hafði og haft orðsendingar og gert sér marga vini bæði á Íslandi og Grænlandi og svo í Færeyjum. Ólafur konungur hafði sent til Íslands kirkjuvið og var sú kirkja ger á Þingvelli þar er alþingi er. Hann sendi með klukku mikla þá er enn er þar. Það var þá eftir er Íslendingar höfðu fært lög sín og sett kristinn rétt eftir því sem orð hafði til send Ólafur konungur.

Síðan fóru af Íslandi margir metorðamenn þeir er handgengnir gerðust Ólafi konungi. Þar var Þorkell Eyjólfsson, Þorleikur Bollason, Þórður Kolbeinsson, Þórður Barkarson, Þorgeir Hávarsson, Þormóður Kolbrúnarskáld.

Ólafur konungur hafði sent vingjafir mörgum höfðingjum til Íslands en þeir sendu honum þá hluti er þar fengust og þeir væntu að honum mundi helst þykja sending í. En í þessu vináttumarki er konungur gerði til Íslands bjuggu enn fleiri hlutir þeir er síðan urðu berir.