Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/132

Úr Wikiheimild
Heimskringla - Ólafs saga helga
Höfundur: Snorri Sturluson
132. Frá Ólafi konungi


Ólafur konungur stefndi til sín lendum mönnum sínum og fjölmenntist mjög um sumarið því að þau fóru orð um að Knútur hinn ríki mundi fara vestan um sumarið. Þóttust menn það spyrja af kaupskipum þeim er vestan komu að Knútur mundi saman draga her mikinn á Englandi. En er á leið sumarið þá sannaði annar en annar synjaði að her mundi koma.

En Ólafur konungur var um sumarið í Víkinni og hafði menn á njósn ef Knútur konungur kæmi til Danmerkur. Ólafur konungur sendi menn um haustið austur til Svíþjóðar á fund Önundar konungs mágs síns og lét segja honum orðsendingar Knúts konungs og tilkall það er hann hafði við Ólaf konung um Noreg og lét það fylgja að hann hygði, ef Knútur legði Noreg undir sig, að Önundur mundi litla hríð þaðan í frá í friði hafa Svíaveldi og kallar það ráð að þeir byndu saman ráð sín og risu í móti og segir að þá skorti eigi styrk til að halda deilu við Knút konung.

Önundur konungur tók vel orðsending Ólafs konungs og sendi þau orð í mót að hann vill leggja félagsskap af sinni hendi við Ólaf konung svo að hvor þeirra veitti öðrum styrk til af sínu ríki, hvor sem fyrr þarf. Það var og í orðsending milli þeirra að þeir skyldu finnast og ætla ráð fyrir sér. Ætlaði Önundur konungur að fara um veturinn eftir yfir Vestra-Gautland en Ólafur konungur efnaði sér til vetursetu í Sarpsborg.

Knútur hinn ríki kom það haust til Danmerkur og sat þar um veturinn með fjölmenni mikið. Honum var sagt að menn og orðsendingar hefðu farið milli Noregskonungs og Svíakonungs og þar mundi stórræði undir búa. Knútur konungur sendi menn um veturinn til Svíþjóðar á fund Önundar konungs, sendi honum stórar gjafir og vinmæli, segir svo að hann mætti vel kyrr sitja um deilur þeirra Ólafs digra „því að Önundur konungur,“ segir hann, „og ríki hans skal í friði vera fyrir mér.“

En er sendimenn komu á fund Önundar konungs þá báru þeir fram gjafir þær er Knútur konungur sendi honum og vináttu hans með. Önundur konungur tók þeim ræðum ekki fljótt og þóttust sendimenn það á finna að Önundur konungur mundi vera mjög snúinn til vináttu við Ólaf konung. Fóru þeir aftur og segja Knúti konungi erindislok sín og það með að þeir báðu hann engrar vináttu vænta af Önundi konungi.