Heimskringla/Ólafs saga helga/133

Úr Wikiheimild

Vetur þann sat Ólafur konungur í Sarpsborg og hafði fjölmenni mikið. Þá sendi hann Karla hinn háleyska norður í land með erindum sínum. Fór Karli fyrst til Upplanda, síðan norður um fjall, kom fram í Niðarósi, tók þar fé konungs, svo mikið sem hann hafði orð til send, og skip gott, það er honum þótti vel til fallið ferðar þeirrar er konungur hafði fyrir ætlað en það var að fara til Bjarmalands norður. Var svo ætlað að Karli skyldi hafa félag konungs og eiga hálft fé hvor við annan.

Karli hélt skipinu norður á Hálogaland snemma um vorið. Réðst þá til ferðar með honum Gunnsteinn bróðir hans og hafði hann sér kaupeyri. Þeir voru nær hálfum þriðja tigi manna á skipi því, fóru þegar um vorið snemmendis norður á Mörkina.

Þórir hundur spurði þetta. Þá gerði hann menn og orðsending til þeirra bræðra og það með að hann ætlar að fara um sumarið til Bjarmalands, vill hann að þeir hafi samflot og hafi að jafnaði það er til fengjar verður.

Þeir Karli senda þau orð að móti að Þórir skuli hafa hálfan þriðja tug manna svo sem þeir höfðu. Vilja þeir þá, að af fé því er fæst, sé skipt að jafnaði milli skipanna fyrir utan kaupeyri þann er menn höfðu.

En er sendimenn Þóris komu aftur þá hafði hann fram látið setja langskipsbússu mikla er hann átti og látið búa. Hann hafði til skips þess húskarla sína og voru á skipinu nær átta tigum manna. Hafði Þórir einn forráð liðs þess og svo aflan þá alla er fengist í ferðinni.

En er Þórir var búinn hélt hann skipi sínu norður með landi og hitti þá Karla norður í Sandveri. Síðan fóru þeir allir saman og byrjaði vel.

Gunnsteinn ræddi við Karla bróður sinn þegar er þeir Þórir hittust að honum þótti Þórir vera helsti fjölmennur. „Og ætla eg,“ segir hann, „að það væri ráðlegra að vér snerum aftur og færum ekki svo, að Þórir ætti alla kosti við oss því að eg trúi honum illa.“

Karli segir: „Eigi vil eg aftur hverfa en þó er það satt ef eg hefði vitað þá er vér vorum heima í Langey að Þórir hundur mundi koma í ferð vora með lið svo mikið sem hann hefir að vér mundum hafa haft fleiri manna með oss.“

Þeir bræður ræddu þetta við Þóri, spurðu hverju það gegndi er hann hafði menn miklu fleiri með sér en svo sem orð höfðu um farið.

Hann svarar svo: „Vér höfum skip mikið og liðskylft. Þykir mér í háskaförum slíkum eigi góðum dreng aukið.“

Fóru þeir um sumarið oftast þannug sem skipin gengu til. Þá er byrlétt var gekk meira skipið þeirra Karla, sigldu þeir þá undan en þá er hvassara var sóttu þeir Þórir þá eftir. Voru þeir sjaldan allir saman en vissust þó til jafnan.

En er þeir komu til Bjarmalands þá lögðu þeir til kaupstaðar. Tókst þar kaupstefna. Fengu þeir menn allir fullræði fjár er fé höfðu til að verja. Þórir fékk óf grávöru og bjór og safala. Karli hafði og allmikið fé það er hann keypti skinnavöru marga.

En er þar var lokið kaupstefnu þá héldu þeir út eftir ánni Vínu. Var þá sundur sagt friði við landsmenn. En er þeir koma til hafs út þá eiga þeir skiparastefnu. Spyr Þórir ef mönnum sé nokkur hugur á að ganga upp á land og fá sér fjár. Menn svöruðu að þess voru fúsir ef féföng lægju brýn við.

Þórir segir að fé mundi fást ef ferð sú tækist vel „en eigi óvænt að mannhætta gerist í förinni.“

Allir sögðu að til vildu ráða ef fjárvon væri.

Þórir segir að þannug væri háttað þá er auðgir menn önduðust að lausafé skyldi skipta með hinum dauða og örfum hans. Skyldi hann hafa hálft eða þriðjung en stundum minna. Það fé skyldi bera út í skóga, stundum í hauga og ausa við moldu. Stundum voru hús að ger. Hann segir að þeir skyldu búast til ferðarinnar að kveldi dags.

Svo var mælt að engi skyldi renna frá öðrum, engi skyldi og eftir vera þá er stýrimenn segðu að í brott skyldi. Þeir létu menn eftir að gæta skipa en þeir gengu á land upp. Voru fyrst vellir sléttir en þar næst mörk mikil. Þórir gekk fyrr en þeir bræður Karli og Gunnsteinn.

Þórir bað menn fara hljóðsamlega: „Og hleypið af trjánum berki svo að hvert tré sjái frá öðru.“

Þeir komu fram í rjóður eitt mikið en í rjóðrinu var skíðgarður hár, hurð fyrir og læst. Sex menn af landsmönnum skyldu vaka yfir skíðgarðinum hverja nótt, sinn þriðjung hverjir tveir. Þá er þeir Þórir komu til skíðgarðsins voru vökumenn heim gengnir en þeir er þar næst skyldu vaka voru eigi komnir á vörðinn. Þórir gekk að skíðgarðinum og krækti upp á öxinni, las sig upp eftir, fór svo inn um garðinn öðrum megin hliðsins. Hafði Karli þá og komist yfir garðinn öðrum megin hliðsins. Komu þeir jafnsnemma til hurðarinnar, tóku þá frá slagbranda og luku upp hurðina. Gengu menn þá inn í garðinn.

Mælti Þórir: „Í garði þessum er haugur, hrært allt saman gull og silfur og mold. Skulu menn þar til ráða. En í garðinum stendur goð Bjarma er heitir Jómali. Verði engi svo djarfur að hann ræni.“

Síðan ganga þeir á hauginn og tóku fé sem mest máttu þeir og báru í klæði sín. Fylgdi þar mold mikil sem von var.

Síðan mælti Þórir að menn skyldu í brott fara. Segir hann svo: „Nú skuluð þið bræður Karli og Gunnsteinn fyrstir fara en eg mun síðast.“

Sneru þeir þá allir út til hliðsins. Þórir veik aftur til Jómala og tók silfurbolla er stóð í knjám honum. Hann var fullur af silfurpeningum. Steypti hann silfrinu í kilting sína en dró á hönd sér höddu er yfir var bollanum, gekk þá út til hliðsins.

Þeir förunautar voru þá komnir allir út úr skíðgarðinum, urðu þá varir við að Þórir hafði eftir dvalist. Karli hvarf aftur að leita hans og hittust þeir fyrir innan hliðið. Sá Karli að Þórir hafði þar silfurbollann. Síðan rann Karli að Jómalanum. Hann sá að digurt men var á hálsi honum. Karli reiddi til öxina og hjó í sundur tygilinn aftan á hálsinum er menið var fest við. Varð högg það svo mikið að höfuðið hraut af Jómala. Varð þá brestur svo mikill að öllum þeim þótti undur að. Tók Karli menið. Fóru þeir þá í brott.

En jafnskjótt sem bresturinn hafði orðið komu fram í rjóðrið varðmennirnir og blésu þegar í horn sín. Því næst heyrðu þeir lúðragang alla vega frá sér. Sóttu þeir þá fram að skóginum og í skóginn en heyrðu til rjóðursins aftur óp og kall. Voru þar Bjarmar komnir.

Þórir hundur gekk síðast allra manna liðs síns. Tveir menn gengu fyrir honum og báru fyrir honum sekk. Þar var í því líkast sem aska. Þar tók Þórir í hendi sinni og söri því eftir í slóðina, stundum kastaði hann því fram yfir liðið, fóru svo fram úr skóginum á völluna. Þeir heyrðu að her Bjarma fór eftir þeim með kalli og gaulun illilegri. Þustu þeir þá fram úr skóginum eftir þeim og svo á tvær hliðar þeim en hvergi komu Bjarmar svo nær þeim eða vopn þeirra að mein yrði að. En það könnuðu þeir af að Bjarmar sæju þá eigi.

En er þeir komu til skipanna þá gengu þeir Karli fyrstir á skip, því að þeir voru fremstir áður, en Þórir var lengst á landinu. Þegar er þeir Karli komust á skip sitt köstuðu þeir tjöldum af sér og slógu festum. Síðan drógu þeir segl sitt upp. Gekk skipið brátt út á hafið.

En þeim Þóri tókst allt seinna. Var skip þeirra óauðráðnara. En er þeir tóku til segls þá voru þeir Karli komnir langt undan landi. Sigldu þá hvorirtveggju yfir Gandvík. Nótt var þá enn ljós. Sigldu þeir þá bæði nætur og daga allt til þess er þeir Karli lögðu aftan dags að eyjum nokkurum, lögðu þar segl og köstuðu akkerum og biðu þar straumfalls því að röst mikil var fyrir þeim.

Þá koma þeir Þórir eftir. Leggjast þeir og um akkeri. Síðan skutu þeir báti. Gekk Þórir á og menn með honum og reru þeir þá til skips þeirra Karla. Gekk Þórir upp á skipið. Þeir bræður heilsuðu honum vel.

Þórir bað Karla selja sér menið. „Þykist eg maklegastur að hafa kostgripi þá er þar voru teknir því að mér þóttuð þér mín njóta er undankoma vor var með engum mannháska. En mér þóttir þú Karli stýra oss til hins mesta geigs.“

Þá segir Karli: „Ólafur konungur á fé það allt að helmingi er eg afla í ferð þessi. Nú ætla eg honum menið. Far þú á fund hans ef þú vilt, kann þá vera að hann fái þér menið ef hann vill fyrir því eigi hafa er eg tók það af Jómalanum.“

Þá svarar Þórir og segir að hann vill að þeir fari upp á eyna og skipti fengi sínu. Gunnsteinn segir að þá skipti straumum og mál væri að sigla. Síðan draga þeir upp strengi sína.

En er Þórir sá það fór hann ofan í bátinn. Reru þeir til skips síns. Þeir Karli höfðu þá dregið segl sitt og voru langt komnir áður þeir Þórir hefðu upp komið sínu segli. Fóru þeir þá svo að þeir Karli sigldu ávallt fremri og höfðu við hvorirtveggju allt slíkt er máttu. Þeir fóru svo til þess er þeir komu í Geirsver. Þar er bryggjulægi fyrst er norðan fer. Þar komu þeir fyrst hvorirtveggju aftan dags og lögðu þar til hafnar í bryggjulægi. Lágu þeir Þórir inn í höfninni en þeir Karli voru í utanverðri höfninni.

En er þeir Þórir höfðu tjaldað þá gekk hann á land upp og þeir menn mjög margir saman. Fóru þeir til skips Karla. Höfðu þeir þá um búist. Þórir kallaði út á skipið og bað stýrimenn á land ganga. Þeir bræður gengu á land og nokkurir menn með þeim.

Þá hóf Þórir hina sömu ræðu sem fyrr að hann bað þá á land ganga og bera fé til skiptis er þeir höfðu tekið að herfangi. Þeir bræður sögðu að engi væri nauðsyn á því fyrr en þeir kæmu heim í byggð. Þórir segir að það var eigi siðvenja að skipta herfangi eigi fyrr en heima og hætta svo til um einurð manna. Þeir ræddu um þetta nokkurum orðum og þótti sinn veg hvorum. Þá sneri Þórir í brott.

Og er hann var skammt kominn þá veik hann aftur og mælti að förunautar hans skyldu bíða þar. Hann kallar á Karla: „Eg vil mæla við þig einmæli,“ segir hann.

Karli gekk í móti honum. En er þeir hittust lagði Þórir spjóti til hans á honum miðjum svo að í gegnum stóð.

Mælti þá Þórir: „Kenna máttu Karli þar einn Bjarkeyinginn. Hugði eg og að þú skyldir kenna spjótið Selshefni.“

Karli dó þegar en þeir Þórir gengu aftur til skipsins. Þeir Gunnsteinn sáu fall Karla. Runnu þeir þegar til og tóku líkið, báru til skips síns, brugðu þegar tjöldum og bryggjum og heimtust út frá landi. Síðan drógu þeir segl og fóru leið sína.

Þeir Þórir sáu það. Þá reka þeir tjöld af sér og búast sem ákaflegast. En er þeir drógu seglið þá gekk í sundur stagið. Fór seglið ofan þverskipa. Varð þeim Þóri það dvöl mikil áður þeir kæmu upp öðru sinni seglinu. Voru þeir Gunnsteinn þá langt komnir er skriður var að skipi Þóris. Gerðu þeir Þórir bæði, sigldu og reru undir. Slíkt sama gerðu þeir Gunnsteinn. Fóru þá hvorirtveggju sem ákaflegast dag og nótt. Dró seint saman með þeim því að þegar er eyjasundin tóku til þá varð mjúkara að víkja Gunnsteins skipi. En þó drógu þeir Þórir eftir svo að þá er þeir Gunnsteinn komu fyrir Lengjuvík þá snúa þeir þar að landi og hljópu af skipinu og á land upp.

En litlu síðar koma þeir Þórir þar og hlaupa upp eftir þeim og elta þá. Kona ein gat hólpið Gunnsteini og fólgið hann og er svo sagt að sú væri fjölkunnig mjög. Og fóru þeir Þórir aftur til skips, tóku fé það allt er á var skipinu Gunnsteins en báru grjót í staðinn, fluttu skipið út á fjörðinn, hjuggu á raufar og sökktu niður. Síðan fóru þeir Þórir heim til Bjarkeyjar.

Þeir Gunnsteinn fóru fyrst mjög huldu höfði, fluttust á smábátum, fóru um nætur en lágu um daga, fóru svo til þess er þeir komu fram um Bjarkey og allt til þess er þeir komu úr sýslu Þóris. Fór Gunnsteinn fyrst heim í Langey og dvaldi þar skamma hríð.

Fór hann þá þegar suður á leið. Létti hann eigi fyrr en hann kom suður í Þrándheim og hitti þar Ólaf konung og segir honum tíðindi slík sem orðin voru í Bjarmalandsferðinni.

Konungur lét illa yfir þeirra ferð en bauð Gunnsteini með sér að vera og segir það að hann skyldi leiðrétta mál Gunnsteins þá er hann mætti við komast. Gunnsteinn þekktist það boð og dvaldist hann með Ólafi konungi.