Heimskringla/Ólafs saga helga/135

Úr Wikiheimild

Vor það hafði farið skip af Noregi út til Færeyja. Á því skipi fóru orðsendingar Ólafs konungs til þess að koma skyldi utan af Færeyjum einnhver þeirra hirðmanna hans, Leifur Össurarson eða Gilli lögsögumaður eða Þórálfur úr Dímon.

En er þessi orðsending kom til Færeyja og þeim var sagt sjálfum þá ræða þeir sín á milli hvað undir mun búa orðsendingunni og kom það ásamt með þeim að þeir hugðu að konungur mundi vilja spyrja eftir um þau tíðindi er sumir menn höfðu fyrir satt að þar mundu gerst hafa í eyjunum um misfarar sendimanna konungs, þeirra tveggja skipsagna er engi maður hafði af komist. Þeir réðu það af að Þórálfur skyldi fara. Réðst hann til ferðar og bjó byrðing er hann átti og aflaði þar til manna. Voru þeir á skipi tíu eða tólf.

En er þeir voru búnir og biðu byrjar þá var það tíðinda í Austurey í Götu að Þrándar að einn góðan veðurdag gekk Þrándur í stofu en þeir lágu í pöllum bróðursynir hans tveir, Sigurður og Þórður. Þeir voru Þorlákssynir. Hinn þriðji hét Gautur hinn rauði. Hann var enn frændi þeirra. Allir voru þeir fóstrar Þrándar gervilegir menn. Var Sigurður elstur þeirra og fyrir þeim mest í öllu. Þórður átti kenningarnafn, var hann kallaður Þórður hinn lági. Hann var þó manna hæstur og var hitt þó meir að hann var þreklegur og rammur að afli.

Þá mælti Þrándur: „Mart skipast á manns ævi. Ótítt var þá það er vér vorum ungir að menn skyldu sitja eða liggja veðurdaga góða, þeir er ungir voru og til alls vel færir. Mundi það eigi þykja líklegt hinum fyrrum mönnum að Þórálfur úr Dímon mundi vera þroskamaður meiri en þér. En byrðingur sá er eg hefi átt og hér stendur í nausti ætla eg að nú gerist svo forn að fúni undir bráðinu. Er hér hús hvert fullt af ullu og verður ekki til verðs haldið. Mundi eigi svo ef eg væri nokkurum vetrum yngri.“

Sigurður hljóp upp og hét á þá Gaut og Þórð, kvaðst eigi þola frýju Þrándar. Ganga þeir út og þar til er húskarlar voru, ganga þeir til og setja fram byrðinginn. Létu þeir þá flytja til farm og hlóðu skipið. Skorti þar eigi heima farm til, svo reiði allur með skipi. Bjuggu þeir það á fám dögum. Voru þeir og menn tíu eða tólf á skipi. Tóku þeir Þórálfur út eitt veður allir, vissust til jafnan í hafinu. Þeir komu að landi í Hernu aftan dags. Lögðu þeir Sigurður utar við ströndina og var þó skammt milli þeirra.

Það varð til tíðinda um aftaninn er myrkt var og þeir Þórálfur ætluðu til rekkna búast þá gekk Þórálfur á land upp og annar maður með honum. Leituðu þeir sér staðar. Og er þeir voru búnir ofan að ganga þá sagði sá svo er honum fylgdi að kastað var klæði yfir höfuð honum, var hann tekinn upp af jörðu. Í því bili heyrði hann brest. Síðan var farið með hann og reiddur til falls en þar var undir sær og var hann keyrður á kaf en hann komst á land. Fór hann þar til er þeir Þórálfur höfðu skilist. Hitti hann þar Þórálf og var hann klofinn í herðar niður og var hann þá dauður. Og er þeir skipverjar urðu þessa varir þá báru þeir lík hans út á skip og náttsættu.

Þá var Ólafur konungur á veislu í Lygru. Voru þangað orð ger. Var þá stefnt örvarboð eða þing og var konungur á þingi. Hann hafði þangað stefna látið þeim Færeyingum af báðum skipum og voru þeir til þings komnir.

En er þing var sett þá stóð konungur upp og mælti: „Þau tíðindi eru hér orðin er því er betur að slík eru sjaldgæt. Hér er af lífi tekinn góður drengur og hyggjum vér að saklaus sé. Eða er nokkur sá maður á þingi er það kunni að segja hver valdi er verks þessa?“

En þar gekk engi við.

Þá mælti konungur: „Ekki er því að leyna hver minn áhugi er um verk þetta að eg hygg á hendur þeim Færeyingum. Þykir mér þannug helst að unnið sem Sigurður Þorláksson mundi hafa vegið manninn en Þórður hinn lági mundi hinn hafa fært á kaf. En það fylgir að eg mundi þess til geta að það mundi til saka vera fundið að þeir mundu eigi vilja að Þórálfur segði eftir þeim ódáðir þær er hann muni vitað hafa að satt er, en oss hefir verið grunur á, um morð þau og illvirki að sendimenn mínir hafi þar verið myrðir.“

En er konungur hætti ræðu sinni þá stóð upp Sigurður Þorláksson. Hann mælti: „Ekki hefi eg talað fyrr á þingum. Ætla eg mig munu þykja ekki orðfiman. En þó ætla eg ærna nauðsyn til vera að svara nokkuru. Vil eg þess til geta að ræða þessi er konungur hefir uppi haft muni vera komin undan tungurótum þeirra manna er miklu eru óvitrari en hann og verri, en það er ekki leynt að þeir munu fullkomlega vilja vera vorir óvinir. Er það ólíklega mælt að eg mundi vilja vera skaðamaður Þórálfs því að hann var fóstbróðir minn og góður vinur. En ef þar væru nokkur önnur efni í og væru sakir milli okkar Þórálfs þá em eg svo viti borinn að eg mundi heldur til þessa verks hætta heima í Færeyjum en hér undir handarjaðri yðrum konungur. Nú vil eg þessa máls synja fyrir mig og fyrir oss alla skipverja. Vil eg þar bjóða fyrir eiða svo sem lög yður standa til. En ef yður þykir hitt í nokkuru fullara þá vil eg flytja járnburð. Vil eg að þér séuð sjálfir við skírsluna.“

En er Sigurður hætti ræðu sinni þá urðu margir til flutningar og báðu konung að Sigurður skyldi ná undanfærslu, þótti Sigurður vel hafa talað og kváðu hann ósannan mundu að vera því er honum var kennt.

Konungur segir: „Um þenna mann mun stórum skipta. Og ef hann er loginn þessu máli þá mun hann vera góður maður en að öðrum kosti þá mun hann vera nokkuru djarfari en dæmi munu til vera og er það eigi miður mitt hugboð. En get eg að hann beri sér sjálfur vitni um.“

En við bæn manna þá tók konungur festu af Sigurði til járnburðar. Skyldi hann koma eftir um daginn til Lygru. Skyldi biskup þar gera skírslu. Og sleit svo þinginu.

Fór konungur aftur til Lygru en Sigurður og þeir förunautar til skips síns. Tók þá brátt að myrkva af nótt.

Þá mælti Sigurður við þá förunauta: „Það er satt að segja að vér höfum komið í mikið vandkvæði og orðið fyrir álygi mikilli og er konungur sjá brögðóttur og vélráður og mun auðsær vor kostur ef hann skal ráða því að hann lét fyrst drepa Þórálf en hann vill nú gera oss að óbótamönnum. Er honum lítið fyrir að villa járnburð þenna. Nú ætla eg þann verr hafa er til þess hættir við hann. Nú leggst og innan eftir sundinu fjallagol nokkuð. Ræð eg það að vér vindum segl vort og siglum út á haf. Fari Þrándur annað sumar með ull sína ef hann vill selja láta en ef eg kemst í brott þá þykir mér þess von að eg komi aldrei síðan til Noregs.“

Þeim förunautum þótti þetta snjallræði. Taka þeir að setja upp segl sitt og láta ganga um nóttina í haf út sem mest mega þeir. Þeir létta eigi fyrr en þeir koma í Færeyjar og heim í Götu. Lét Þrándur illa yfir ferð þeirra. Þeir svöruðu eigi vel og voru þó heima með Þrándi.