Heimskringla/Ólafs saga helga/136

Úr Wikiheimild

Brátt spurði Ólafur konungur það er þeir Sigurður voru í brott farnir og lagðist þá þungur orðrómur á um þeirra mál. Voru þeir margir að þá kölluðu þess von að þeir Sigurður mundu sönnu sagðir er áður höfðu synjað fyrir hann og mælt í móti. Ólafur konungur var fáræðinn um þetta mál en hann þóttist vita þá sannindi á því er hann hafði áður grunað. Fór konungur þá ferðar sinnar og tók veislur þar er fyrir voru gervar.

Ólafur konungur heimti til máls við sig þá menn er komið höfðu af Íslandi, Þórodd Snorrason, Gelli Þorkelsson, Stein Skaftason, Egil Hallsson.

Þá tók konungur til máls: „Þér hafið í sumar vakið við mig það mál að þér vilduð búast til Íslandsferðar en eg hefi eigi veitt úrslit hingað til um það mál. Nú vil eg segja yður hvernug eg ætla fyrir. Gellir, þér ætla eg að fara til Íslands ef þú vilt bera þannug erindi mín. En aðrir íslenskir menn, þeir er nú eru hér, þá munu engir til Íslands fara fyrr en eg spyr hvernug þeim málum er tekið er þú Gellir skalt þannug bera.“

En er konungur hafði þetta upp borið þá þótti þeim, er fúsir voru fararinnar og bannað var, súskapur mikill hafður við sig og þótti seta sín ill og ófrelsi.

En Gellir bjóst til ferðar og fór um sumarið til Íslands og hafði með sér orðsendingar þær þangað er hann flutti fram annað sumar á þingi. En sú var orðsending konungs að hann beiddi þess Íslendinga að þeir skyldu taka við þeim lögum sem hann hafði sett í Noregi en veita honum af landinu þegngildi og nefgildi, pening fyrir nef hvert, þann er tíu væri fyrir alin vaðmáls. Það fylgdi því að hann hét mönnum vináttu sinni ef þessu vildu játa en ellegar afarkostum þá sem hann mætti við komast.

Yfir þessu tali sátu menn lengi og réðu um sín í milli og kom það ásamt að lyktum með allra samþykki að neita skattgjöfum og öllum álögum þeim er kraft var. Og fór Gellir það sumar utan og á fund Ólafs konungs og hitti hann það haust í Vík austur þá er hann var kominn af Gautlandi ofan svo sem eg vænti að enn skal sagt verða síðar í sögu Ólafs konungs.

Þá er á leið haustið sótti Ólafur konungur norður í Þrándheim og hélt liði sínu til Niðaróss, lét þar búa til vetursetu sér. Sat Ólafur konungur þann vetur eftir í kaupangi. Sá var hinn þrettándi vetur konungsdóms hans.