Heimskringla/Ólafs saga helga/145

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Þá er Ólafur konungur sigldi til Danmerkur og hélt til Sjólands, en er hann kom þar tók hann að herja, veitti uppgöngur. Var þá bæði landsfólkið rænt og sumt drepið, sumt var handtekið og bundið, flutt svo til skipa en allt flýði, það er því kom við, og varð engi viðstaða. Gerði Ólafur konungur þar hið mesta hervirki.

En er Ólafur konungur var á Sjólandi þá spurði hann þau tíðindi að Önundur konungur Ólafsson hafði úti leiðangur og fór með her mikinn austan fyrir Skáni og herjaði hann þar. Varð þá bert um ráðagerð þá er þeir Ólafur konungur og Önundur konungur höfðu haft í Elfinni þá er þeir gerðu samband sitt og vináttu að þeir skyldu báðir veita mótstöðu Knúti konungi. Fór Önundur konungur til þess er hann fann Ólaf konung mág sinn.

En er þeir hittust þá gera þeir það bert bæði fyrir sínu liði og landsfólkinu að þeir ætla undir sig að leggja Danmörk og beiða sér viðurtöku af landsmönnum. En það var sem víða finnast dæmi til að þá er landsfólkið verður fyrir hernaði og fær eigi styrk til viðurtöku þá játa flestir öllum þeim álögum er sér kaupa frið í. Varð þá svo að margir menn ganga til handa þeim konungum og játuðu þeim hlýðni. Lögðu þeir víða landið undir sig þar er þeir fóru en herjuðu að öðrum kosti.

Sighvatur skáld getur þessa hernaðar í drápu þeirri er hann orti um Knút konung hinn ríka:

Knútr var und himnum.
Hygg eg ætt að frétt
Haralds í her
hug vel duga.
Lét lýgötu
lið suðr úr Nið
Ólafr, jöfur
ársæll, fara.
Þurðu norðan,
namst það, með gram
til slétts svalir
Silunds kilir.
En með annan
Önundr Dönum
á hendr að há
her sænskan fer.