Fara í innihald

Heimskringla/Ólafs saga helga/146

Úr Wikiheimild


Knútur konungur hafði spurt vestur til Englands að Ólafur Noregskonungur hafði leiðangur úti, svo og það að hann fór með liði því til Danmerkur og þar var ófriður í ríki hans. Tók þá Knútur liði að safna. Dróst þar brátt saman her mikill og fjöldi skipa. Var Hákon jarl annar höfuðsmaður fyrir því liði.

Sighvatur skáld kom það sumar til Englands vestan úr Rúðu af Vallandi og sá maður með honum er Bergur hét. Þeir höfðu þangað farið kaupferð hið fyrra sumar. Sighvatur orti flokk þann er kallaður var Vesturfararvísur og er þetta upphaf.

Bergr, höfum minnst, hve, margan
morgun, Rúðuborgar
börð lét eg í för fyrða
fest við arm hinn vestra.

En er Sighvatur kom til Englands þá fór hann þegar til fundar við Knút konung og vildi beiða sér orlofs að fara til Noregs. Knútur konungur hafði sett bann fyrir kaupskip öll fyrr en hann hefði búið her sinn.

En er Sighvatur kom til hans þá gekk hann til herbergis þess er konungur var inni. Þá var herbergið læst og stóð hann lengi úti. En er hann hitti konung þá fékk hann lof sem hann beiddi. Þá kvað hann:

Utan varð eg, áðr en Jóta
andspilli fékk eg stillis,
melld sá eg hús fyr höldi,
húsdyr fyr spyrjast.
En erindi óru
áttungr í sal knátti
Gorms, ber eg oft á armi
járnstúkur, vel lúka.

En er Sighvatur varð þess var að Knútur konungur býr herferð á hendur Ólafi konungi og hann vissi hversu mikinn styrk Knútur konungur hafði þá kvað Sighvatur:

Ör, tegast Ólaf gerva,
allt hefir sá er, fjörvaltan,
konungs dauða mun eg kvíða,
Knútr og Hákon, úti.
Haldist vörðr, þó að vildit
varla Knútr og jarlar,
dælla er, fyrst á fjalli,
fundr, ef hann sjálfr kemst undan.

Enn orti Sighvatur fleiri vísur um ferð þeirra Knúts og Hákonar. Þá kvað hann enn:

Átti jarl að sætta
alframr búendr gamla
og þeir er oftast tóku
Ólaf að því máli.
Þeir hafa fyrr af fári,
framt er Eiríks kyn, meira
höfðum keypt en heiftir
Hákon saman myndi.