Heimskringla/Ólafs saga helga/150

Úr Wikiheimild

Það var einn dag að kveldi að njósnarmenn Önundar konungs sáu sigling Knúts konungs og átti hann þá þangað eigi langt. Þá lét Önundur konungur blása herblástur. Ráku menn þá tjöld af sér og herklæddust, reru út úr höfninni og austur fyrir landið, lögðu þá saman skip sín og tengdu og bjuggust til bardaga. Önundur konungur hleypti njósnarmönnum á land upp. Fóru þeir á fund Ólafs konungs og sögðu honum þessi tíðindi.

Þá lét Ólafur konungur brjóta stíflurnar og hleypa ánni í veg sinn en hann fór um nóttina ofan til skipa sinna.

Knútur konungur kom fyrir höfnina. Þá sá hann hvar lá her konunga búinn til bardaga. Þótti honum sem þá mundi vera síð dags að leggja til orustu, um það er her hans væri allur búinn, því að floti hans þurfti rúm mikið á sænum til að sigla. Var langt í milli hins fyrsta skips og hins síðasta, svo þess er utast fór eða hins er næst fór landi. Veður var lítið. En er Knútur konungur sá að Svíar og Norðmenn höfðu rýmda höfnina þá lagði hann inn til hafnar og svo skipin sem rúm höfðu en þó lá meginherinn út á hafinu.

Um morguninn er mjög var ljóst þá var lið þeirra mart á landi uppi, sumt á tali en sumt að skemmtan sinni. Þá finna þeir eigi fyrr en þar geysast vötn að þeim með fossfalli. Þar fylgdu viðir stórir er rak að skipum þeirra. Meiddust skipin þar fyrir en vötnin flutu um völluna alla. Týndist það fólkið er á landi var og mart það er á skipum var en allir þeir er því komu við hjuggu festar sínar og leystust út og rak skipin mjög sundurlaus. Dreka hinn mikla er sjálfur konungur var á rak út fyrir straumi. Varð honum ekki auðsnúið með árum. Rak hann út að flota þeirra Önundar konungs.

En er þeir kenndu skipið þá lögðu þeir þegar að umhverfis. En fyrir þá sök að skipið var borðmikið svo sem borg væri en fjöldi manns á og valið hið besta lið, vopnað og sem örugglegast, þá varð skipið ekki auðsótt. Var og stundin skömm áður Úlfur jarl lagði að með sínu liði og hófst þá orusta. Því næst dróst að her Knúts konungs öllum megin. Þá sáu konungar, Ólafur og Önundur, að þeir mundu unnið hafa þá að sinni þann sigur sem auðið var, létu þá síga skip sín á hömlu og leystust í brott úr her Knúts konungs og skildu flotana.

En fyrir þá sök að atlaga þessi hafði ekki þannug tekist sem Knútur konungur hafði til skipað, höfðu skipin ekki þannug fram lagt sem til var skipað, þá varð ekki af atróðrinum og könnuðu þeir Knútur konungur lið sitt og tóku þá að skipa liðinu og bjuggust um.

En er þeir höfðu skilist og sér fór hvor flotinn þá könnuðu konungar lið sitt og fundu að þeir höfðu ekki mannspell fengið. Það sáu þeir og ef þeir biðu þar þess er Knútur konungur hefði búið allan her þann er hann hafði og legði síðan að þeim að liðsmunur var svo mikill að lítil von var að þeir mundu sigrast en auðvitað, ef orusta tækist, að þar mundi verða hið mesta mannfall. Nú var það ráð tekið að róa liðinu öllu austur með landi. En er þeir sáu að flotinn Knúts konungs fór ekki eftir þeim þá reistu þeir viður og settu upp segl sín.

Óttar svarti ræðir um fund þenna í þeirri drápu er hann orti um Knút hinn ríka:

Svíum hnekktir þú, sökkva
siklingr ör, en mikla
ylgr, þar er Áin helga,
úlfs beitu fékk, heitir.
Héltu, þar er hrafn né svalta,
hvatráðr ertu, láði,
ógnar stafr, fyr jöfrum,
ýgr, tveim, við kyn beima.

Þórður skáld Sjáreksson orti erfidrápu um Ólaf konung hinn helga. Sú er kölluð Róðadrápa og er þar getið þessa fundar:

Átti Egða drottinn,
Ólafr, þrimu stála
við ágætan Jóta
öðling þann er klýfr hringa.
Skaut nær skarpt að móti
Skánunga gramr hánum.
Sveins vara sonr að reyna
slær. Þaut úlfr of hrævi.