Heimskringla/Ólafs saga helga/151

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search


Ólafur konungur og Önundur konungur sigldu austur fyrir veldi Svíakonungs og að aftni dags lögðu þeir að landi þar er heitir Barvík. Lágu konungar þar um nóttina. En það fannst á um Svía að þeim var þá títt heim að fara. Var það mikill hluti Svíahers að sigldi um nóttina austur með landi og létta þeir eigi fyrr sinni ferð en hver kom til síns heimilis.

En er Önundur konungur varð þessa var og þá lýsti af degi þá lét hann blása til húsþings. Gekk þá allt lið á land og var sett þing.

Önundur konungur tók til máls: „Svo er,“ segir hann, „sem þér Ólafur konungur vitið að vér höfum í sumar farið allir saman og herjað víða um Danmörk. Höfum vér fengið fé mikið en ekki af löndum. Eg hefi haft í sumar hálft fjórða hundrað skipa en nú er eigi meir eftir en hundrað skipa. Nú líst mér svo sem vér munum vinna ekki til sæmdar með eigi meira her en nú höfum vér þó að þér hafið sex tigu skipa sem þér hafið í sumar haft. Nú þykir mér það sýnlegast að fara aftur í ríki mitt og er gott heilum vagni heim að aka. Vér höfum aflað í ferð þessi en ekki látið. Nú vil eg Ólafur mágur bjóða yður að þér farið með mér og verum í vetur allir ásamt. Takið slíkt af mínu ríki sem þér fáið yður vel haldið og það lið sem yður fylgir. Gerum þá er vor kemur slíkt ráð sem oss sýnist. En ef þér viljið heldur þann kost að hafa land vort til yfirferðar þá skal það heimilt og viljið þér fara landveg í ríki yðart í Noreg.“

Ólafur konungur þakkaði Önundi konungi vinsamleg boð er hann hafði veitt honum. „En þó, ef eg skal ráða,“ segir hann, „þá mun annað ráð tekið og munum vér halda saman her þessum er nú er eftir. Hafði eg fyrst í sumar áður eg fór úr Noregi hálft fjórða hundrað skipa en er eg fór úr landi þá valdi eg úr her þeim öllum það lið er mér þótti best. Skipaði eg þessa sex tigu skipa er nú hefi eg. Nú líst mér og svo um yðart lið sem það muni hafa á brott hlaupið er dáðlausast var og verst fylgd í en eg sé hér alla höfðingja yðra og hirðstjóra og veit eg að það lið er allt betra til vopns er hirðliðið er. Höfum vér enn mikinn her og skipakost svo góðan að vér megum vel liggja úti á skipum í allan vetur svo sem konungar hafa fyrr gert. En Knútur konungur mun litla hríð liggja í Ánni helgu því að þar er engi höfn skipafjölda þeim er hann hefir. Mun hann fara austur eftir oss. Þá skulum vér fara undan og mun oss þá brátt lið dragast. En ef hann snýr aftur þangað sem hafnir þær eru er hann má liggja flota sínum þá mun þar vera engum mun síður en hér mart lið heimfúst. Vænti eg að vér höfum svo um búið í sumar að þorparinn viti hvað hann skal vinna bæði á Skáni og á Sjólandi. Mun her Knúts konungs dreifast brátt víðs vegar og veit þá eigi hverjum sigurs er auðið. Höfum fyrst njósnir af hvert ráð hann tekur.“

Lauk Ólafur konungur svo máli sínu að allir menn gerðu góðan róm að og var það ráðs tekið sem hann vildi vera láta. Voru þá njósnir gervar til liðs Knúts konungs en þeir lágu þar báðir konungar.